151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

Alþjóðaþingmannasambandið 2020.

494. mál
[14:53]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Mig langar að fara nokkrum orðum um nefndina sem ég sit í og víkka kannski aðeins umræðuna og tala um alþjóðamál almennt. Eins og formaður nefndarinnar fór vel yfir hér áðan er Alþjóðaþingmannasambandið svolítið merkilegur félagsskapur. Á vettvangi alþjóðamála er í raun ekki mikið um félagsskap sem byggist á forsendum þjóðþinganna. Alþjóðaþingmannasambandið er gamalt fyrirbæri sem um 180 þjóðþing hafa aðkomu að. Ég tók fyrst þátt í starfi þess fyrir 14 árum og þekki þetta samband nokkuð vel. Sömuleiðis hafa fjölmargir íslenskir þingmenn tekið virkan þátt í störfum sambandsins. Við sem fylgjumst með alþjóðamálum sjáum það — og við ættum í raun að gera það miklu meira og af mun meiri krafti í þessum sal. Ég sakna þess svolítið, og það er svo sem ekki einum eða neinum að kenna, að við tökum ekki oftar dýpri umræðu um alþjóðamál. Við sjáum t.d. að þegar það er gert eru það kannski alltaf sömu þingmenn. En gott og vel, við skiptum með okkur verkum.

Ég held að það skipti svo miklu máli fyrir Íslendinga sem litla þjóð að taka virkan þátt í alþjóðamálum. Við erum lítil þjóð sem reiðum okkur á alþjóðasamskipti og alþjóðareglur. Við getum ekki reitt okkur á styrk eða stærð og þess vegna skiptir svo miklu máli að Íslendingar séu framarlega þegar kemur að alþjóðasamstarfi. Það á ekki að vera eitthvert jaðarmál sem við sinnum sem hliðarverkum. Fyrir Íslendinga og fyrir litlar þjóðir skiptir þetta sköpum. Það gæti jafnvel verið spurning um líf og dauða. Við sem þekkjum ágætlega mannkynssöguna vitum hvaða máli það skiptir að alþjóðareglur séu virtar og alþjóðabatteríið, ef svo má segja, sé virt og njóti virðingar, ekki síst þegar hin stóru ríki hygla sérhagsmunum sínum á kostnað annarra ríkja. Við sjáum sömuleiðis að fjölmörg úrlausnarefni og áskoranir eru á alþjóðlega vísu og við leysum þau vandamál ekki nema þvert á landamæri. Alþjóðleg vandamál krefjast alþjóðlegra lausna. Skýrasta dæmið núna er að sjálfsögðu veiran. Veiran virðir engin landamæri. Það er alveg ótrúlegt að fylgjast með samstöðu heimsbyggðarinnar allrar, vísindamönnum sem starfa þvert yfir landamæri, milli stofnana, háskóla o.s.frv. og samspili einkageirans og opinbera geirans í baráttunni gegn veirunni. Þegar við snúum bökum saman nær mannkynið árangri.

En það er ekki bara á sviði heilbrigðismála sem við þurfum að snúa bökum saman. Ég vil draga hér fram nokkra aðra málaflokka. Umhverfismálin, að sjálfsögðu krefjast þau úrlausnar þvert yfir landamæri og ekki síst undir forystu alþjóðastofnana. Hér þarf alþjóðakerfið, hvort sem það er á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaþingmannasambandsins, eins og við ræðum hér, eða bara allt hitt batteríið, að snúa bökum saman og einbeita sér að því að stíga skref sem skipta máli. Það er tómt mál að tala um ef einstök lönd eða einstakar heimsálfur, ef út í það er farið, ætla að taka ábyrgð á þessu en restin ekki. Hér þarf mannkynið bara að einbeita sér að okkur sem mannkyni. Við erum eitt mannkyn og plánetan okkar er í hættu. Hún er bókstaflega í hættu. Lífskjörum og lífsgæðum barnanna okkar og barnabarnanna okkar er beinlínis teflt í hættu miðað við þá stöðu sem blasir við í umhverfismálum. Við höfum náð árangri þegar við höfum einbeitt okkur saman að áskorunum í umhverfismálum. Þegar ég var að alast upp var mikil umræða um ósonlagið. Þingmenn sem eru á mínum aldri og eldri vita að það var raunveruleg hætta. Alþjóðasamstarfið skilaði árangri, einmitt með opinberu regluverki, þegar kom að því að sporna við þeim tækjum og efnum sem voru að gera gat á ósonlagið. Það er bara ágætisdæmi um að þegar við vinnum alþjóðlega náum við alþjóðlegum árangri.

Annað sem ég vil draga fram er flóttamannavandinn sem tengist umhverfismálunum. Það er áskorun sem við þurfum að sjálfsögðu að einbeita okkur miklu frekar að. Sá vandi mun bara vaxa frá ári til árs. Hann tengist öðrum þætti þar sem við þurfum að ná árangri saman og það er bara friður. Það eru enn fjölmörg átök á jörðinni sem mörg hver rata ekki einu sinni í fréttirnar lengur. Það ætti að vera hagsmunamál okkar allra að stuðla að auknum friði á þeim svæðum sem búa við ófrið.

Barátta okkar fyrir mannréttindum; við erum löngu búin að taka þá umræðu að mannréttindi séu algild. Þau eru ekki sértæk, þau eru algild. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, og ég held að fjölmargir þingmenn séu þeirrar skoðunar, að alþjóðasamfélagið þurfi að vera miklu kræfara að skipta sér af þegar ríkisstjórnir brjóta á þegnum sínum. Við getum ekki setið aðgerðalaus hjá þegar einhver ríkisstjórn eða forseti eða forsætisráðherra brýtur á þegnum sínum og gegn þeim mannréttindum sem við eigum öll. Við getum ekki setið hjá. Sorgleg dæmi í sögunni sýna það, eins og Rúanda á sínum tíma. Ég tek það sem dæmi. Við erum nú þegar með átök þar sem alþjóðasamfélagið þarf að skipta sér af. Jemen er gott dæmi eins og staðan er í dag. Við eigum aldrei að líða uppgang fasisma. Við eigum aldrei að líða að fólk búi við mannréttindabrot, ofbeldi, fangelsisvist o.s.frv. Þetta skiptir mjög miklu máli. Alþjóðaþingmannasambandið — aftur að þessu fyrirbæri sem við ræðum hér — skiptir sér einmitt af því þegar verið er að fangelsa þingmenn. Það er alveg skelfilegur listinn sem maður fær á þessum ráðstefnum sem maður sækir yfir lönd þar sem þingmenn eru beinlínis fangelsaðir fyrir störf sín. Hugsið ykkur, þetta er svo fjarlægt fyrir okkur hér. Við getum gagnrýnt þessa blessuðu ríkisstjórn eins og enginn sé morgundagurinn en okkur dettur ekki í hug að þau myndu fangelsa okkur. En það er raunveruleiki sumra kollega okkar úti í hinum stóra heimi.

Herra forseti. Ég vil halda áfram að draga fram áskoranir sem kalla á alþjóðlegar lausnir. Ójöfnuður er ein af þeim. Ójöfnuður teflir jafnvægi í hættu. Ójöfnuður er ekki bara ósanngjarn, hann er líka hættulegur samfélaginu. Á meðan bilið milli ríkra og fátækra eykst skapar það hættu. Þar fyrir utan eigum við að sjálfsögðu að hafa þá hugmyndafræði að lyfta sem flestum upp úr fátækt. Þetta er vandinn sem við sjáum víða um heim, þessi aukni eignaójöfnuður. Við sjáum bara þessar geigvænlegu tölur. Einstaklingar eru nánast orðnir ríkari en þjóðríki. Hugsið ykkur. Á hvaða vegferð erum við og hvers konar kerfi erum við með ef einstaklingur getur orðið ríkari en heilu ríkin og haft jafnvel áhrif í samræmi við það? Þetta er áskorun sem við þurfum að tækla saman, hvort sem það er að uppræta skattaskjól eða bara að innleiða hér sanngjarnar og jafnar leikreglur. Við sjáum að það er ekki uppi á teningnum. Þetta er klassíska baráttan á milli sérhagsmuna og almannahagsmuna sem við þekkjum svo vel úr þessum sal.

Alþjóðaviðskipti — ég er mikill alþjóðasinni og ég tel að því meiri viðskipti sem eru á milli landa því betra, því meira sem hagsmunir okkar verða samtvinnaðir því betra. Ég held að við megum ekki hrökkva í varnargírinn og reisa tollmúra í nafni einhverra annarra markmiða, hvort sem það kallast fæðuöryggi eða annað slíkt. Ég held að miklu skynsamlegra sé að alþjóðaviðskipti séu hér sem mest. Að sjálfsögðu þarf að gæta að hagsmunum þeirra sem starfa í þessu kerfi en eftir því sem alþjóðaviðskipti aukast farnast þjóðum yfirleitt betur.

Árásir á tölvukerfin okkar eru líka áskorun sem fer þvert yfir landamæri. Það kallar líka á að þau alþjóðabatterí sem við tölum hér um bregðist sameiginlega við, að þetta skipti raunverulega máli. Við reiðum okkur svo mikið á tölvur, fjarskipti og samskipti. Fjármálakerfið okkar, greiðslumiðlunin, þetta er allt mjög brothætt þegar kemur að árásum af einhverju tagi, hvort sem það er af hálfu ríkisstjórna eða glæpahópa.

Að lokum langar mig að nefna málaflokk sem ég mikinn áhuga á og kannski kemur það spánskt fyrir sjónir. Það er dýravernd. Án gríns. Dýravernd skiptir hér máli. Af hverju nefni ég það? Það skiptir að sjálfsögðu máli að við stöndum fyrir fjölbreytileika dýralífs. Við skuldum jörðinni og komandi kynslóð hvað það varðar. En ég ætla að enda á þeim orðum sem ég opnaði á í byrjun. Hvað erum við að glíma við í dag? Við erum að glíma við veiru sem barst úr dýri í manninn vegna óeðlilega mikils samneytis á vissum stöðum í heiminum. Þess vegna vil ég tengja það saman. Við erum að kljást við veiru og það er því miður ekki síðasta veiran nema við breytum því hvernig við nálgumst samneyti milli manna og dýra. Margar skæðustu farsóttirnar koma þessa leið, hvort sem það er fuglaflensa, svínaflensa eða Covid-19. Þetta skiptir máli og snertir okkur öll. Eitthvað sem gerist á fjarlægum mörkuðum í Asíu hefur bein áhrif á okkur í dag hér uppi á litla Íslandi. Þessi veirufaraldur er ágætisdæmi um það, herra forseti.