151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

meðferð sakamála.

129. mál
[16:43]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að skýra spurninguna betur. Eins og kom fram í ræðunni eru tilfelli þar sem dómari og þeir sem fara með sjálfa málsmeðferðina hafa metið sem svo að það geti t.d. skapað hættu fyrir vitni og að vitnið þurfi að flytja sinn vitnisburð án þess að það sé nafngreint. Ég get ímyndað mér að í slíkum tilfellum séu e.t.v. gerðar ráðstafanir, að það sé ekki bein útsending af leið þessa aðila inn í dómhúsið til að flytja málið fyrir luktum dyrum. Ég get alveg ímyndað mér að fólk hafi lagst í þá vinnu.

Mig langar bara að spyrja hv. þingmann að því hvort hann viti um einhver tilfelli þar sem þetta tiltekna vandamál hafi komið upp, þar sem líf og limir einhvers einstaklings hafi verið í hættu. Eins og ég lít á þetta væri löggjafinn þarna að fara yfir á valdsvið dómstóla í of miklum mæli og skerða með því um leið frelsi fjölmiðla til umfjöllunar. En hvað varðar þetta tiltekna dæmi sem hv. þingmaður tekur langar mig að svara honum með spurningu: Veit hann um einhver dæmi þess að þetta hafi gerst í einhverjum tugum tilvika svo að það þurfi að skrifa heilt lagafrumvarp um það og fá samþykkt hér á Alþingi Íslendinga? Spyr sá sem ekki veit.

(Forseti (BN): Það hefur enga þýðingu að spyrja hv. þingmann að því þar sem ræðutíma hans er lokið.)