151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

lögreglulög.

135. mál
[17:12]
Horfa

Flm. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 19/1996, sem fjallar um að afnema bann við verkfallsrétti lögreglumanna. Flutningsmenn með mér á frumvarpinu eru hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson og Helgi Hrafn Gunnarsson.

Frumvarp þess efnis að lögreglumenn hljóti verkfallsrétt á nýjan leik var fyrst flutt á 144. löggjafarþingi. Frumvarpið var lagt aftur fram á 145. löggjafarþingi, 149. löggjafarþingi og 150. löggjafarþingi. Á 144. löggjafarþingi, þegar frumvarpið var fyrst lagt fram, gekk það til allsherjar- og menntamálanefndar sem sendi út umsagnarbeiðnir. Umsagnir bárust frá Bandalagi háskólamanna, BSRB, Félagi yfirlögregluþjóna, Landssambandi lögreglumanna, Lögreglufélagi Eyjafjarðar, Lögreglufélagi Reykjavíkur, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Tollvarðafélagi Íslands. Allar umsagnirnar voru jákvæðar um málið. Í ljósi þess og að jafn brýnt er nú og þegar frumvarpið var flutt í fyrsta sinn að lögreglumenn endurheimti rétt sinn til að sækja kjarabætur með verkfalli ef nauðsynlegt reynist er það nú endurflutt. Geri ég það nú í þriðja sinn. Á síðasta þingi gekk málið til allsherjar- og menntamálanefndar sem sendi út umsagnarbeiðnir vegna þess. Umsagnir bárust frá BSRB, Félagi yfirlögregluþjóna, Guðmundi Fylkissyni, Landssambandi lögreglumanna og Lögreglufélagi Eyjafjarðar. Í öllum umsögnum var tekið undir efni frumvarpsins og áhersla lögð á það að lögreglumenn fengju verkfallsrétt, í flestum umsögnum var það einnig tekið fram að lögreglumenn hefðu goldið fyrir það í kjarabaráttu sinni að hafa ekki verkfallsrétt.

Félagafrelsi er verndað í 74. gr. stjórnarskrárinnar og fjölmörgum alþjóðasamningum sem Ísland á aðild að. Má þar nefna 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var með lögum frá 1994 og félagsmálasáttmála Evrópu sem fullgiltur var hér á landi 1976. Félagafrelsi lýtur ekki einungis að rétti til að stofna félög og eiga aðild að þeim, heldur einnig til að standa utan félaga. Jafnframt er félagafrelsið talið ná að einhverju marki til athafnafrelsis félaga til að tryggja og standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna. Þrátt fyrir að félagafrelsið feli ekki í sér skilyrðislausan rétt til verkfalls, þá er hann eigi að síður talinn mikilvægur hluti samningsfrelsis félaga sem nýtur verndar samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum. Því er ljóst að takmörkun slíks réttar skal byggð á lögmætum sjónarmiðum og nauðsyn í lýðræðisþjóðfélagi.

Verkfallsréttur lögreglumanna var afnuminn með lögum nr. 82/1986 sem fólu í sér breytingar á þágildandi lögreglulögum. Fram til þess tíma höfðu lögreglumenn rétt til verkfalls líkt og aðrar stéttir innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja með þeim fyrirvara að skylt var að halda uppi nauðsynlegri öryggisgæslu á meðan á verkfalli stóð, samanber 26. gr. þágildandi laga um samningsrétt BSRB. Afnám verkfallsréttar var hluti af samkomulagi milli Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra í júlí 1986. Kveðið var á um afnám verkfallsréttar í bókun við samkomulagið, en í stað þess skyldu lögreglumenn fá svokallaða kauptryggingu ef ekki næðust samningar um kjör þeirra. Kauptryggingin átti að fela í sér sömu meðalhækkun launa og bandalög opinberra starfsmanna fengju á hverjum tíma. Þau félög sem miða átti við voru BSRB, Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Samband íslenskra bankamanna og Bandalag kennarafélaga. Skyldi útreikningurinn vera í höndum Hagstofu Íslands.

Allt frá því að samkomulagið tók gildi voru uppi ólík sjónarmið um framkvæmd þess milli lögreglumanna annars vegar og ríkisins hins vegar. Útreikningur kauptryggingar fór ekki fram fyrstu árin eins og til stóð og gerðu lögreglumenn ítrekað athugasemdir við það. Eftir mikinn þrýsting af þeirra hálfu framkvæmdi Hagstofa Íslands umrædda útreikninga árið 1988 að beiðni fjármálaráðherra. Samkomulagið hafði kveðið á um möguleika til endurskoðunar á útreikningum af hálfu Landssambands lögreglumanna en ekki var um slíkt að ræða í reynd. Landssambandið taldi því þegar hér var komið sögu að samningsréttarákvæði kjarasamningsins frá 1986 væru brostin og óskaði m.a. eftir því að lögreglumenn fengju aftur verkfallsrétt, en án árangurs.

Landssamband lögreglumanna hefur um langt skeið reynt að ná fram kjarabótum fyrir lögreglumenn með litlum árangri. Að þeirra mati hafa lögreglumenn dregist aftur úr þeim viðmiðunarstéttum sem miðað var við í fyrrgreindu samkomulagi sem fól í sér afnám verkfallsréttarins. Ein ástæða þess er án efa sú staðreynd að lögreglumenn geta ekki gripið til þess neyðarúrræðis sem verkfallsrétturinn er, til jafns við aðrar stéttir samfélagsins, náist ekki viðunandi niðurstaða í viðræðum um kjaramál.

Herra forseti. Lögreglan sinnir afar mikilvægum störfum tengdum öryggi lands og þjóðar. Sú sérstaða virðist með núverandi fyrirkomulagi vinna gegn stétt lögreglumanna hvað kjaramál varðar frekar en að stuðla að auknum réttindum vegna mikilvægis þeirra í samfélaginu. Eðli málsins samkvæmt yrði verkfallsréttur lögreglumanna háður þeim fyrirvara að ávallt þarf að halda uppi neyðar- og öryggisþjónustu. Hins vegar væri fjöldinn allur af störfum innan lögreglunnar sem eigi að síður væri hægt að leggja niður væri slíkt talið nauðsynlegt til stuðnings kröfum um kjarabætur í verkfalli. Landssamband lögreglumanna hefur á undanförnum árum lagt áherslu á verkfallsréttinn í kjarabaráttu og hafa ýmis lögreglufélög á landsvísu ályktað í þá veru.

Starfsumhverfi lögreglumanna hefur tekið miklum breytingum á umliðnum árum og gerðar eru sífellt ríkari kröfur til lögreglumanna. Mætti þar nefna fjölmargar tækninýjungar sem lögreglan hefur tekið í þjónustu sína og ekki síður að afbrot verða sífellt flóknari. Hefur þetta leitt til þess að lögreglustarfið hefur þróast ört á síðustu árum og áratugum. Með lögum nr. 61/2016 var nám lögreglumanna fært á háskólastig og er nú tveggja ára diplómanám, en var áður eins árs nám við Lögregluskóla ríkisins, sem skilgreint var á framhaldsskólastigi. Má segja að auknar kröfur til lögreglustarfsins speglist ekki hvað síst í þessum breytingum.

Mikilvægt er að lögreglumönnum verði gert kleift að sækja sér kjarabætur með sama hætti og aðrar stéttir en þurfi ekki að sitja eftir meðan starf þeirra verður flóknara, erfiðara og kröfur til lögreglumanna aukast sífellt hvað varðar menntun, tækjakost og færni almennt, bæði tæknilega og ekki síður í samskiptum við borgarana. En samsetning borgara landsins hefur breyst frá því að vera afar einsleit og til þess að verða æ alþjóðlegri, með fjölgun íbúa með annan bakgrunn en áður var auk mikillar fjölgunar ferðamanna hingað til lands. Lögreglumönnum verði þannig skipuð sköpuð sú sjálfsagða samningsstaða gagnvart viðsemjanda sínum, sem er ríkið, sem skilað getur þeim sanngjörnum kjörum í vinnuumhverfi sínu.

Með frumvarpi þessu er lagt til að verkfallsréttur lögreglumanna verði endurreistur með einfaldri breytingu á lögreglulögum á þá leið að 31. gr. þeirra laga verði felld úr gildi.

Lagt er til að frumvarpinu verði að loknum umræðum vísað til allsherjar- og menntamálanefndar til umfjöllunar. Vænti ég þess, herra forseti, að málið fái nú loksins framgang í þinginu.