151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

lögreglulög.

135. mál
[17:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka aðeins til máls í þessu máli. Eins og hér hefur komið fram var málið fyrst flutt á 144. þingi af hv. varaþingmanni Vinstri grænna, Eyrúnu Eyþórsdóttur, og á þinginu þar á eftir lagði ég þetta mál fram, þannig að mér brá dálítið þegar það birtist svo í höndum Miðflokksins. En gott og vel, það er alltaf gott ef einhver sér ástæðu til þess að fara fram með góð mál.

Ég hef löngum talað fyrir málefnum lögreglunnar á mörgum vígstöðvum, m.a. varðandi kjaramál og margt sem þeim tengist. Safnað var gríðarmiklum upplýsingum nokkuð langt aftur í tímann sem sneru að kjaramálum lögreglunnar og leiddi einmitt í ljós það sem reifað er í þessu máli hvað varðar þróun þeirra kjaramála. Sannarlega hefur eitt og annað breyst frá því að frumvarpið var lagt fram á 144. þingi og fram til dagsins í dag, eins og kemur fram í niðurlaginu núna, m.a. varðandi námið, sem var eitt af því sem rætt var á sínum tíma, þ.e. að það færðist upp á háskólastig. Um það var töluvert rætt þegar þetta mál var flutt hér í fyrsta sinn. Nú er það orðið að veruleika og eins og hér er nefnt hafa orðið meiri tækninýjungar og annað slíkt, lögreglan býr yfir miklu betri búnaði en áður og skiptir það auðvitað máli í því starfi sem hún vinnur almennt.

Ég tek undir það að verkfallsheimildin er mikilvæg heimild hjá öllum stéttarfélögum. Ég held að hægt sé að færa rök fyrir því að þegar lögreglan hafði þessa heimild hafi hún sannarlega ekki verið misnotuð. Það er dálítið súrt, verð ég að segja, að það hafi ekki gengið eftir sem um var samið á sínum tíma. En eins og stundum áður greinir menn á um hvort við þetta hafi verið staðið eða ekki, þ.e. af ríkinu annars vegar og svo Landssambandi lögreglumanna hins vegar. En ég held að það fari ekkert á milli mála, þegar rýnt er í þær tölur sem dregnar voru fram í fyrirspurn minni fyrir dálítið löngu, að þær sýndu sannarlega að svo var ekki.

Ég vil einnig taka til máls um, af því að mér finnst það skipta máli, að þessi réttur sé til staðar. Eins og hefur komið fram ber alltaf að halda uppi lágmarksöryggisþjónustu og það er ekki svo að lögreglufólk skilji hér allt eftir í volli þó að verkfallsvopninu yrði hugsanlega beitt. Ég held að við ættum ekki að óttast það, a.m.k. liggur það fyrir að eftir að menn sömdu verkfallsréttinn frá sér gegn breytingum á launafyrirkomulagi, sem ekki hefur gengið eftir, þótt sannarlega hafi verið bætt í og gert betur í þeim málum upp á síðkastið, þá vitum við samt alveg að lögreglan vinnur þannig vinnu sem ég held að við myndum ekki vilja vera án. Um leið og við viljum endurnýjun viljum við halda í mikla og góða reynslu en ekki að fólk hrökklist úr starfi, ýmist vegna álags eða vegna þess að vinnuumhverfið eða annað slíkt er ekki eins og best verður á kosið.

Ég ætla að segja það aftur að ég tel sannarlega að ýmislegt hafi náðst varðandi umhverfi og annað slíkt, en betur má ef duga skal varðandi þessa stétt eins og fleiri. En ég styð þetta mál og ég tel að við eigum ekki að vera feimin við að vinna að því að lögreglumenn öðlist aftur þennan rétt. Ég tel að hægt sé að sýna fram á að hann hafi ekki verið misnotaður áður og verði það ekki heldur í framhaldinu, verði þetta að lögum.