151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

fjarskipti.

[13:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Aðfaranótt 1. febrúar tók herinn völdin í Mjanmar, taldi kosningar þar ólögmætar. Eitt af því sem herinn hefur gert í kjölfarið er að slökkva eða kveikja á internetinu af og til, ef svo mætti að orði komast, til að koma í veg fyrir samskipti sem hann telur óæskileg. Þá hefur það vakið athygli okkar að í gildandi lögum er ákvæði sem heimilar íslenskum yfirvöldum að stöðva fjarskipti á ófriðartímum og við að garfa í lögskýringargögnum verð ég að segja að það er frekar óljóst, alla vega fyrir þann sem hér stendur, nákvæmlega hvernig ófriðartímar eru skilgreindir, sér í lagi nú í seinni tíð. En sömuleiðis hefur orðið sú breyting á samfélagi okkar síðan þetta ákvæði var fyrst sett að fjarskipti snerta miklu stærri og víðfeðmari hluta af lífi okkar en áður, nefnilega með tilkomu internetsins. Þetta snýst ekki bara um síma, útvarp og þess háttar, heldur meira eða minna allt sem við gerum í lífinu og er því mun ríkara inngrip í dag en var á sínum tíma.

Í frumvarpi sem er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd og utanríkismálanefnd frá hæstv. ráðherra er sambærilegt ákvæði, það er sama ákvæði í 1. mgr. 99. gr. orðrétt. Það er sama með lögskýringargögnin í því og nokkuð aftur í tímann, að alltaf er byggt á fyrri ákvæðum. Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort hæstv. ráðherra hafi hugsað út í hvort ástæða sé til að endurskoða þetta ákvæði, þessa heimild, sér í lagi með tilliti til þess hlutverks sem internetið spilar í samfélaginu í dag, en sömuleiðis með tilliti til þess hvað hugtakið ófriðarástand getur þýtt í nútímasamfélagi. Tími minn er að renna út og ég fer kannski betur út í það í seinni spurningu, en mér þætti vænt um að heyra viðhorf hæstv. ráðherra við þessum vangaveltum.