151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

staða drengja í skólakerfinu.

[13:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu brýna málefni, stöðu drengja, og fyrir að fjalla um menntakerfið. Hv. þingmaður spyr hvað verið sé að gera núna og ætla ég að fara yfir nokkra þætti sem skipt hafa mjög miklu máli. Í fyrsta lagi höfum við samþykkt eitt leyfisbréf þvert á öll skólastigin til að efla stöðu kennara og það eru kennararnir sem kenna börnunum. Búið var að reyna að fara í þessar breytingar í heil tíu ár en það tókst núna fyrir tveimur árum.

Í öðru lagi erum við búin að fjölga kennaranemum um 40% og erum með sérstaka áherslu á unga drengi í rannsóknum. Það var samþykkt núna fyrir nokkrum mánuðum.

Í þriðja lagi langar mig til að nefna nokkur verkefni sem miða sérstaklega að þessu. Eitt er í Vestmannaeyjum, sem við erum að vinna með Hermundi Sigmundssyni prófessor, þar sem við erum að fjalla um stöðu drengja og breyta menntakerfinu og gefa okkur það að við ætlum að leggja meiri áherslu á hreyfingu og grunnlestrarfærni.

Í fjórða lagi vil ég nefna skólaþróunarteymi sem eiga að fjalla sérstaklega um þetta og við höfum þegar sett þau á laggirnar.

Í fimmta lagi höfum við mótað stefnu um börn af erlendum uppruna og að sjálfsögðu eru drengir þar líka. Við vitum að við þurfum að aðstoða sérstaklega þessa hópa og við gerum það nú þegar. En við erum líka að móta stefnu til framtíðar um að öll börn á Íslandi fái jöfn tækifæri og ég legg höfuðáherslu á það. Við erum búin að gera mjög mikið og við ætlum að halda áfram að gera enn meira.