151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

breyting á menntastefnu með tilliti til drengja.

[13:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og fara aðeins yfir menntastefnuna og út á hvað hún gengur. Ég vil minna hv. þingmann á það að framtíðarsýn menntastefnu til ársins 2030 gengur út á það að við veitum öllum hér framúrskarandi menntun alla ævi. Þetta er loforð þingsins til barna og ungs fólks, allra. Það á við um drengi og stúlkur og alla sem eru í samfélaginu, hvernig svo sem það liggur allt.

Ég vil nefna fyrsta liðinn. Þar eru jöfn tækifæri fyrir alla. Það er nám við allra hæfi. Ég er að hugsa um að lesa það bara upp, með leyfi forseta, og ég vona að hv. þingmaður hafi kynnt sér þetta vel:

„Skólar og aðrar menntastofnanir taki mið af þörfum, getu og hæfni sérhvers nemanda og vinni út frá styrkleikum og áhuga hvers og eins. Samfélaginu ber skylda til þess að hlúa sem best að velferð barna og ungmenna og tryggja öllum tækifæri til þess að þroskast og dafna á eigin forsendum innan menntakerfisins.“

Að sjálfsögðu er verið að fjalla um drengi þarna. En ég get líka upplýst hv. þingmann um það að ég legg mikla áherslu á að þingið komi að þessu. Allt sem við teljum að geti bætt núverandi menntastefnu og það hvernig við erum að hugsa þetta inn til framtíðar, ég tek því fagnandi. Ég tek því fagnandi.