151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

uppfærð markmið Íslands fyrir aðildarríkjafund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26).

[13:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir tækifærið til að setja af stað þessa mikilvægu umræðu sem ég bað um til að kalla eftir uppfærðum markmiðum sem skila á fyrir næsta fund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Þá er ekki úr vegi, fyrst við stöndum hér, að óska hæstv. ráðherra til hamingju með að í dag hafi loks náðst að birta þau markmið á vef Sameinuðu þjóðanna, reyndar ári eftir að upphaflegur frestur rann út. En betra er seint en aldrei. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, án þess að vilja hreykja sjálfum mér of mikið, að ég held að það hafi eitthvað haft að segja að ráðherra hafi þurft að standa fyrir svörum hér í þingsal í dag. Hefði ég vitað að það þyrfti sérstaka umræðu til að fá ríkisstjórnina loksins til að taka við sér hefði ég verið löngu búinn að biðja um hana. Við skulum muna þetta næst.

En fyrst við höfum uppfærð markmið fyrir framan okkur verður sú spurning sem mig langaði að spyrja enn meira knýjandi. Ég vildi heyra frá ráðherranum hvort Ísland ætlaði sér að setja fram sjálfstæð landsmarkmið um samdrátt í losun eða hvort Ísland ætlaði, eins og í síðasta umgangi, að skýla sér á bak við samstarfið við Evrópusambandið. 40% samdráttur, sem var í síðasta umgangi, var saminn niður í 29% framlag Íslands til sameiginlegs markmiðs Evrópusambandsins. Ísland samdi sig niður. Stendur til núna, herra forseti, að semja Ísland niður frá þeim 55% sem Evrópusambandið er búið að einsetja sér að ná í samdrætti? Og höfum í huga að þau 55% eru málamiðlun við mestu kolafíklana í Evrópu. Ísland á að geta gert miklu betur. Lítum bara á frændur okkar Norðmenn sem hafa sett fram sjálfstætt landsmarkmið upp á 50–55% og segja: Þar sem það gengur lengra en það sem okkur er úthlutað í samstarfi við Evrópusambandið munum við bara fylla upp í bilið. Það er ekkert verið að skýla sér á bak við Evrópusambandssamstarfið þar.

Því miður, eins og ég sagði í upphafi, er þessi uppfærsla ári of sein og það er tími sem við verðum að sjá eftir, ekki bara út af einhverju heldur vegna þess að það glataðist raunverulega árangur við það. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var uppfærð síðasta vor. Miðað við gamla metnaðinn hefði uppfærslan verið búin að eiga sér stað, hefðum við verið með betri aðgerðaáætlun en þá sem liggur fyrir í dag um 35% samdrátt í losun sem ríkisstjórnin gumar sig af að gangi lengra en sem nemur alþjóðlegum skuldbindingum. Það er satt og rétt ef aðeins er litið á skuldbindingarnar gagnvart Evrópusambandinu sem voru prúttaðar niður. 29% er jú minna en 35%, en 40% var það sem við töluðum alltaf um að við ætluðum að ná.

Hvenær má þá vænta þess að aðgerðaáætlun verði uppfærð til að endurspegla 55% markmiðin? Það þurfum við að heyra. Og hvernig munu uppfærðu landsmarkmiðin endurspeglast í annarri stefnumörkun eins og t.d. í fjármálaáætlun, sem von er á í þingsal innan nokkurra vikna, og mun setja rammann utan um umfang ríkisins næstu fimm ár? Er hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra með fjármálaráðherra í því að koma auknum metnaði í loftslagsmálum inn í þá áætlun? Eða er ráðherrann með samgönguráðherra að endurskoða fjármögnun samgönguframkvæmda næstu ára til að ná markmiðum í loftslagsmálum?

Þetta hefði náttúrlega verið miklu auðveldara ef við hefðum haft síðasta ár til að innleiða þennan nýja aukna metnað eins og til stóð vegna þess að báðar þessar áætlanir voru afgreiddar á vordögum miðað við gamla metnaðinn. En þar að auki, horfandi til framtíðar, vegna þess að ráðherrann mun koma með frumvarp um kolefnishlutleysi árið 2040, telur ráðherrann ekki þörf á því að lögfesta líka áfangamarkmið, markmið um prósentusamdrátt í losun fyrir árið 2030 í samræmi við skuldbindingar gagnvart Parísarsáttmálanum? Þá geta stjórnvöld alltaf á sérhverjum tíma (Forseti hringir.) borið sig saman við þær áætlanir sem þau eru að ná eða ekki að ná. Það að vera með einhverja framtíðarsýn (Forseti hringir.) 19 ár fram í tímann er bara töluvert óljósara en að vera með skýra prósentulínu næstu tíu árin.