151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

uppfærð markmið Íslands fyrir aðildarríkjafund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26).

[13:45]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu. Uppfærð landsmarkmið Íslands í loftslagsmálum voru kynnt af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra þann 12. desember 2020 í ávarpi á leiðtogafundi um loftslagsmetnað sem haldinn var fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna og Bretlands, sem er gestgjafi næsta aðildarþings loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Langflest ríki skiluðu nú rétt fyrir áramótin. Það sem hv. þingmaður segir hér, að Ísland sé ári á eftir áætlun, á þá við um langflest önnur ríki heims þannig að því sé haldið til haga. Landsmarkmiðið var, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, sent inn fyrr í dag og hefur verið birt á vefsíðu loftslagssamningsins. Þar er yfirlýsing Íslands um aukinn metnað um 15 prósentustig, þ.e. 55% samdrátt í losun í samfloti með ESB og Noregi. Auk ýmissa tæknilegra upplýsinga er þar að finna í viðauka ýmsar upplýsingar um losun Íslands, uppsprettur losunar, markmið varðandi kolefnishlutleysi fyrir 2040, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og aðlögun að loftslagsbreytingum.

Það er vert að ræða aðeins hvernig stöðu landsmarkmiðs Íslands er hagað innan ramma Parísarsamkomulagsins í ljósi samflots Íslands og Noregs með Evrópusambandinu og 27 aðildarríkjum þess. Þannig að það sé sagt hefur Ísland hvergi og aldrei samið sig niður eða prúttað sig niður. Það er einfaldlega ekki rétt hjá hv. þingmanni og hann veit það vel. ESB sendi inn landsmarkmið sitt í lok árs 2020 en einstök aðildarríki þess senda ekki sjálfstætt landsmarkmið, sem Ísland gerir hins vegar og sömuleiðis Noregur. Ísland og Noregur ákváðu að stefna að samfloti með ESB í aðdraganda Parísarsamningsins 2015 en gengið var frá formlegum samningi þar um árið 2019. Meginávinningurinn af slíku samfloti fyrir Ísland er sá að með því búum við ekki við tvískiptar skuldbindingar, annars vegar gagnvart alþjóðasamfélaginu og hins vegar gagnvart EES-samningnum. Ísland hefur tekið þátt í viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir í nærri áratug samkvæmt ákvæðum EES-samningsins. Þetta þýðir líka að við búum við sambærilegar og samanburðarhæfar skuldbindingar og helstu nágrannaríki okkar sem almennt eru talin í hópi metnaðarfyllstu og framsæknustu ríkja heims í loftslagsmálum.

Með tilliti til uppfærðra landsmarkmiða stendur Ísland í reynd nokkuð vel að vígi með núverandi aðgerðaáætlun. Hún var uppfærð og styrkt og samþykkt í ríkisstjórn í júní 2020. Þar er kominn grunnur til að byggja samdrátt í losun á til langrar framtíðar. Eins og þingheimur man er þar gert ráð fyrir að ná mun meiri samdrætti í losun sem er á beinni ábyrgð Íslands og sem krafist er af Íslandi í samræmi við núgildandi skuldbindingar Evrópuríkja. Það er nú að breytast og því má segja að með þessari aðgerðaáætlun séum við með gott stjórntæki í höndunum sem ætti að duga okkur eitthvað í átt að uppfærðu markmiði, en þó ekki alla leið. Það er alveg vitað mál. Það þarf því ljóslega að gera enn betur og þess vegna tilkynnti Ísland ekki einungis uppfærðan metnað nú í desember heldur kom einnig fram að efla ætti aðgerðir til að ná nýjum markmiðum sem kallar m.a. á aukin framlög. Í næstu fjármálaáætlun mun því sjást gerð skil.

Samkvæmt nýjum ákvæðum í loftslagslögum ber að endurskoða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum ekki sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Í reynd hefur aðgerðaáætlun verið í stöðugri endurskoðun allt þetta kjörtímabil. Komnar eru uppfærðar aðgerðir á sumum sviðum frá síðustu heildarendurskoðun frá í fyrra, t.d. vegna F-gasa. Þar var gengið lengra en aðgerðaáætlun gerði ráð fyrir. Við eigum von á nýjum tillögum varðandi Evrópureglur á þessu ári og út frá þeim þarf að meta þörf á heildarendurskoðun en klárt er að margar aðgerðir verða útfærðar og efldar.

Ég tel rétt að lögfesta markmið um kolefnishlutleysi og hef kynnt frumvarp til laga þess efnis sem nú er í samráðsgátt. Ég tel það vera stórt skref ef frumvarpið nær fram að ganga hér á Alþingi. Samhliða þessu erum við að vinna að langtímastefnumörkun um kolefnishlutleysi árið 2040 og ég útiloka ekki lögfestingu áfangamarkmiða þegar slíkar sviðsmyndir liggja fyrir. Hvað varðar lögfestingu tiltekinna markmiða um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda finnst mér það vel geta komið til greina líkt og mörg önnur ríki hafa gert, þar á meðal Bretar. Drög að þróunaráætlun um langtímamarkmið er í vinnslu í ráðuneytinu og þau haldast í hendur við langtímastefnumörkun um kolefnishlutleysi sem ég nefndi hér áðan. Nú þegar hafa um 29 ríki skilað inn slíkum þróunaráætlunum. Þær eru nokkuð ólíkar en að þessu erum við að vinna á sama tíma og við erum að vinna að stefnumörkun um kolefnishlutleysi 2040.