151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

uppfærð markmið Íslands fyrir aðildarríkjafund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26).

[13:50]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Auðvitað fagna ég því að taka þátt í umræðu um loftslagsmálin og fá þannig kærkomið tækifæri til að kynna lausnir Miðflokksins í þessum málefnum. Ég vil benda á að markmið okkar Íslendinga í þessum efnum verða að vera raunhæf og trúverðug. Það er ekki gott fyrir málefnið sjálft ef stjórnvöld ætla að efna til flugeldasýningar með óraunhæfum markmiðum, gert í sjálfhverfum, pólitískum tilgangi. Málið er alvarlegra en svo. Ég læt öðrum eftir að nefna og ræða um stofnanir, stýrihópa, nefndir, sviðsmyndir og ýmislegt því um líkt sem snýr að stjórnsýslu og alls kyns skrifstofuvinnu. Ég geri mér fulla grein fyrir því að til að leitast við að vinna bug á vandamálunum í tengslum við loftslagsmálin á hnattræna vísu þarf að líta til margra átta og alls ekki nein ein lausn sem slær vandamálin út af borðinu. En ég ætlaði hér í minni fyrri ræðu að fjalla um eina lausn þar sem við Íslendingar getum lagt talsvert af mörkum ef unnt væri að ráðast í samstillt átak, nefnilega aukna skógrækt. Þar er um að ræða lausn til kolefnisbindingar. Það er alls ekki eina lausnin í þessum efnum, þar má ekki misskilja neitt, en þetta er nauðsynlegt skref.

Í haust lagði ég fram tillögu til þingsályktunar um að Alþingi álykti að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að gera áætlun um að fjórfalda árlega nýskógrækt á næstu fimm árum, úr þremur milljónum gróðursettra plantna í 12 milljónir. Áætlunin verði unnin í samstarfi stjórnvalda, bænda, Skógræktarinnar, skógræktarfélaga, atvinnulífs og almennings og miði að því að margfalda bindingu kolefnis í skógum, skapa ný störf í dreifðum byggðum og auka til langs tíma verðmætasköpun, atvinnutækifæri og landgæði á landinu. Ræktun nýrra skóga, nýskógrækt, er ein mikilvægasta, skilvirkasta, náttúrulega aðgerðin sem heimsbyggðin hefur tiltæka í baráttunni við loftslagsvandann.