151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

uppfærð markmið Íslands fyrir aðildarríkjafund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26).

[13:55]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka þessa þörfu og góðu umræðu. Hlýnun jarðar er stóra áskorunin á okkar dögum, loftslagsbreytingar og neyð sem þegar blasir við á stórum svæðum jarðarinnar, þessarar einu sem við eigum. Markmið Íslendinga í loftslagsmálum þurfa því að vera skýr með landsáætlun sem virkar. Þótt hollt sé að horfa sér nær þá er þetta ekki íslenskur vandi. Við lifum og hrærumst daglega í umræðunni á heimsvísu, hraðfara breytingum og stöðugt verða til ný og ný hugtök. Eitt þeirra hendi ég á lofti sem er loftslagsflóttamenn, fólk sem flýr heimkynni sín vegna hræringa í náttúrunni, vegna hamfara sem raktar eru til loftslagsbreytinga. Þetta er ein birtingarmyndin af mörgum.

Herra forseti. Þetta eru hinar dökku hliðar sem við verðum að horfast í augu við. Við erum knúin til að bregðast við. Það getum við, mannkynið allt, í sameiningu. Við höfum sýnt það í yfirstandandi heimsfaraldri. Sjúkdómur ógnar allri heimsbyggðinni. Við sættum okkur við umtalsverðar fórnir, gríðarlega fyrirhöfn og stórfelld útgjöld af því að þetta er áþreifanlegur sjúkdómur sem við ráðumst skipulega gegn og af krafti. Við þurfum að bregðast við aðsteðjandi loftslagsvá með sama hætti og það þarf að gerast hratt og á heimsvísu. Hér á ekki lengur við og er fráleitt að frestur sé á illu bestur. Núna strax þurfum við í uppbyggingu atvinnulífsins að fjölga grænum skrefum, t.d. með alvörugrænan fjárfestingarsjóð eins og við í Samfylkingunni höfum lagt til.

Herra forseti. Grænu umskiptin gagnast ekki bara í baráttunni við hlýnun jarðar. Þau reynast nefnilega góður bisness. Í kauphöllum nágrannaþjóða benda vísitölur hjá fyrirtækjum í grænni starfsemi bara í eina átt — upp á við. Á þann veg eru hinar ábyrgu leiðir sem við jafnaðarmenn tölum skýrt um, Samfylkingin allra flokka skýrast.

Herra forseti. Það er brýnt að horfast í augu við blákaldan veruleikann og byggja á vísindalegri þekkingu. Verum raunsæ, en verum bjartsýn. Horfum grænum augum til framtíðar.