151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

uppfærð markmið Íslands fyrir aðildarríkjafund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26).

[13:57]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem er mikilvæg. Þó að spurningarnar sem lagt var upp með í umræðunni séu nokkuð þröngar og þeim hafi kannski verið að fullu svarað í upphafi er umræðan mikilvæg og mikilvægt að taka hana aðeins í víðara samhengi. Eins og fram hefur komið er uppfært markmið Íslands í loftslagsmálum þannig að kveðið er á um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030. Í samráðsgátt stjórnvalda liggja svo fyrir drög að frumvarpi sem ætlað er að festa í lög markmið um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040 eins og lagt var upp með í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Ég er mjög ánægð með þessi markmið og við hér á landi erum í einstakri stöðu til þess að ná þeim. Við höfum raunverulegt tækifæri til þess. Viljinn er allt sem þarf. Árangurinn ræðst svo af því hvernig til tekst með samvinnu, eins og raunar í svo mörgu öðru; samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs, samvinnu ólíkra atvinnugreina, samvinnu stjórnvalda og háskóla um nýsköpun, samvinnu heimila og atvinnulífs. Það er mikill metnaður í atvinnulífinu sem ég hef trú á að skili okkur mjög langt í áttina að þessum markmiðum, bara sú vinna sem nú er á fljúgandi ferð. Svo ég taki bara nokkur dæmi úr minni heimabyggð þá má benda á að þar hefur útgerðin síðustu ár náð gífurlegum árangri í að draga úr útblæstri og hefur markmið um að gera enn betur. Það er orðið eitt af helstu stjórntækjunum í hagkvæmum rekstri. Það er líka verið að vinna með skógarbændum að bindingu kolefnis. Og atvinnulífið er á tánum á þessu sviði því að það þekkir að þetta er grundvöllur fyrir aðgengi að markaði.