151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

uppfærð markmið Íslands fyrir aðildarríkjafund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26).

[14:06]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við erum hluti af norðurslóðum og hér eru hraðari loftslagsbreytingar en annars staðar. Loftslagsmarkmiðin sem sett eru fram eru góð og fullnægjandi hvað sem einhvers konar yfirboðagagnrýni líður. Við ætlum að fara í a.m.k. 55% losun og ég legg áherslu á orðin „að minnsta kosti“. Það á að hraða kolefnisbindingu í áföngum fyrir árið 2040 og það á að koma loftslagsmálunum og samdrættinum inn í þróunarsamvinnu sem er mjög mikilvægt.

Herra forseti. Ríkisvaldið er í þessu tilviki verkstjóri, við getum þess vegna kallað það leikstjóra, og fjárfestir vissulega. En ríkisvaldið ber ekki eitt ábyrgð, það er ekki eini framkvæmdaaðili í þessum efnum. Það eru aðrir leikendur og aðrir ábyrgðaraðilar. Þá á ég við sveitarfélögin með áætlanir, ég á við fyrirtækin með áætlanir og ég á við almenna þátttöku fólks á öllum aldri og úr öllum þjóðfélagshópum. Ef menn taka höndum saman, allir þessir aðilar, getum við farið vel fram yfir 55% og auðvitað er það markmiðið.

Ríkisstjórnin hefur líka staðið fyrir sérstökum átökum, eða stórátökum vil ég kalla, varðandi úrgangsmál, stefnu og aðgerðaáætlun sem er í smíðum, fráveitumál og hringrásarhagkerfi. Þar er stefnumótun í gangi varðandi sjálfbærnina. Hringrásarhagkerfið er í raun og veru undirstaða viðvarandi viðnáms gegn hlýnun af mannavöldum. Í öllu þessu erum við á Alþingi í lykilaðstöðu og eigum að nálgast þetta með jákvæðum hætti, standa okkur og sýna nægilega samstöðu í staðinn fyrir að gagnrýna viðstöðulítið en gefa ríkisvaldinu ekki kredit fyrir það sem það gerir.