151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

uppfærð markmið Íslands fyrir aðildarríkjafund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26).

[14:09]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ræddi í fyrri ræðu minni um þær tillögur sem Miðflokkurinn hefur kynnt hér í þinginu sem lausnir í loftslagsmálum. Þar ræddi ég tillögu mína um stóraukna skógrækt til kolefnisbindingar sem myndi nýtast okkur Íslendingum gífurlega, ekki bara á einn veg heldur á fjölmarga vegu. Með fjórföldun skógræktar værum við að leggja verulega til í loftslagsmálum. Ég ætla að halda áfram í seinni ræðu minni og nýta hana til að kynna þær raunhæfu lausnir sem við höfum ítrekað bent á en talað fyrir fremur daufum eyrum stjórnarliða, sérstaklega á vinstri kantinum.

Í þessari seinni ræðu minni mun ég ræða lausn Miðflokksins hvað varðar sorpmálin. Eins og alkunna er þá höfum við Íslendingar að mestu urðað okkar sorp en nýlega hefur útflutningur á sorpi aukist og mun fyrirsjáanlega aukast, einfaldlega vegna þess að helstu urðunarstaðir eru að loka. Urðun er mengandi og losar mikið magn gróðurhúsalofttegunda. Við stöndum því frammi fyrir því að útflutningur á sorpi mun stóraukast á næstu árum verði ekkert að gert. Það er ekki boðlegt, herra forseti. Það er hreinlega sóðalegt að senda sorpið okkar til Evrópu. Því fylgir útblástur vegna flutninganna yfir hafið og síðan við brennsluna sjálfa og loks höfum við séð ófagra þætti í sjónvarpi þegar komið hefur í ljós að hluti af sorpi vestrænna þjóða endar á sorphaugum í Afríku eða í öðrum þriðja heims löndum.

Við eigum að brenna sorpið okkar hér innan lands á eins umhverfisvænan hátt og unnt er. Þannig hef ég á þremur síðustu þingum lagt fram tillögu um að hugað verði að því í fullri alvöru að reisa hér hátæknisorpbrennslu svo við getum leyst okkar sorpvanda sjálf. Nýjar sorpbrennslustöðvar víða um heim eru nú orðnar svo fullkomnar að þær eru mun umhverfisvænni en t.d. urðun og framleiða þar að auki orku. Þetta er framtíðin og mikilvægt innlegg í loftslagsumræðuna. Auðvitað er þetta ekki ein altæk lausn, við verðum einnig að bæta og auka flokkun, endurvinnslu og endurnýtingu, (Forseti hringir.) en það er mikilvægt og nauðsynlegt skref í þá átt að við hættum að vera sóðar í umhverfismálum.