151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

uppfærð markmið Íslands fyrir aðildarríkjafund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26).

[14:11]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Forsætisráðherra lýsti því yfir í desember síðastliðnum fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands að íslensk yfirvöld hefðu uppfært markmið sín um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Eins og við flest vitum stefnir nú í 55% minni losun 2030 miðað við árið 1990 en ekki 45% eins og hefur verið markmiðið undanfarin ár. Þetta er gott og nauðsynlegt en um leið erum við hvorki að fylgja Evrópuþinginu sem vill draga úr losun um 60% né erum við að toppa framkvæmdastjórn ESB eins og mörg önnur Evrópuríki og nágrannaþjóðir okkar hafa gert með metnaðarfyllri markmiðum. Bretland stefnir að 68% samdrætti í losun, Svíþjóð að 63% samdrætti og Danmörk er með markmið um 70% samdrátt í losun miðað við árið 1990.

Hvernig er staðan hér? Enn á eftir að kynna aðgerðir Íslands til að ná þessu nýja markmiði og uppfæra aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, enn á eftir að kynna og tímasetja aðgerðir Íslands miðað við ný markmið. Til að skoða raunveruleg áhrif slíks markmiðs þarf að líta á heildarlosun Íslands með landnotkun. Þar þarf að taka miklu, miklu róttækari skref.

Í desember síðastliðnum spurði ég hæstv. forsætisráðherra hvenær ætti að uppfæra núverandi aðgerðaáætlun í loftslagsmálum miðað við uppfærð markmið. Svar forsætisráðherra var því miður vonbrigði enda sagði hún að það yrði ekki fyrr en í fjármálaáætlun eða rúmum fjórum til fimm mánuðum síðar. Eftir hverju höfum við eiginlega verið að bíða? Það þarf að stíga hér niður fæti og setja miklu skýrari og styrkari stoðir til að uppfæra aðgerðir okkar og aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

Annað sem ég vill leggja áherslu á er að það er ekki í boði miðað við alvarleikann og þungann í þeim málaflokki sem loftslagsmálin eru að (Forseti hringir.) þau séu á hendi einnar ríkisstjórnar eða núverandi ríkisstjórnarflokka. Nauðsynlegt er að fram fari breytt pólitískt samráð (Forseti hringir.) um áherslur Íslands í loftslagsmálum á næstu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow, (Forseti hringir.) sem haldin verður í nóvember 2021, en þeim fundi er ætlað að marka stefnuna til næstu tíu ára.