151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

uppfærð markmið Íslands fyrir aðildarríkjafund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26).

[14:14]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ein stærsta áskorun okkar tíma er loftslagsváin. Flestir vilja leggja sitt af mörkum til að takast á við hana og tryggja að Ísland mæti skuldbindingum sínum í loftslagsmálum. Hið opinbera hefur ekki dregið lappirnar í þeim málum og sett skýr markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 með aðgerðaáætlun hins opinbera. Viljinn er lofsverður og almenn sátt er um markmiðin en til að þeim megi ná þarf þó að tryggja nægilegt fjármagn.

Hættan er að hið opinbera gleymi sér í innheimtu svokallaðra grænna skatta og þeir verði í raun að viðbótartekjum í stað þess að innheimtan sé beintengd markmiðinu með henni, þ.e. að skila tilætluðum árangri í loftslagsmálum og að hún verði síðan afnumin. Með því að bregðast við loftslagsvánni fást stjórnvöld við leiðréttingu markaðsbrests í ljósi þess að hvorki neytendur né framleiðendur þurfa að bera allan kostnaðinn sem samfélagið hlýtur af of mikilli losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Því er nauðsynlegt að stjórnvöld grípi til aðgerða til að mæta skuldbindingum Íslands í góðu samstarfi við viðskiptalífið. Þær aðgerðir sem ríkið getur gripið til eru m.a. mengunarkvótar, grænir skattar og ívilnanir og það er svo sannarlega verið að gera.

Þetta gætu allt verið mín orð en þetta er í raun það sem Viðskiptaráð Íslands skrifar í sinni skýrslu. Að koma svo upp í púlt áðan og tala um að atvinnulífið sé ekki með í þessari vegferð — þvílík endemis vitleysa. Við náum engum árangri í loftslagsmálum ef atvinnulífið er ekki með okkur og atvinnulífið er einmitt að stíga þessi skref. Það er með í þessari baráttu. Samstarfsvettvangur stjórnvalda og fulltrúa atvinnulífsins um loftslagsmál og grænar lausnir hefur verið settur á fót. Fyrir liggur viljayfirlýsing ríkisstjórnarinnar og meginhluta íslensks fjármálamarkaðar þar sem lýst er vilja til að nýta fjármagn til að viðhalda sjálfbærri þróun og taka tillit til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands. Við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd erum með til umfjöllunar frumvarp sem lýtur að því að hvetja til fjárfestinga einkaaðila í atvinnurekstrareiningum með sérstaka áherslu á eignir sem teljast umhverfisvænar og stuðla að sjálfbærni í umhverfismálum.

Við erum svo sannarlega á réttri leið en ég fagna því mjög að við séum að taka þessa umræðu hér í þingsal og við mættum jafnvel ræða það enn oftar. Það er einstakt tækifæri sem bíður okkar núna, í þeirri aðstöðu sem við erum í eftir kófið, að byggja upp öflugt og umhverfisvænt atvinnulíf og ég tel að okkur muni takast það.

(Forseti (GBr): Eitthvað er tímaskráningarkerfið að stríða okkur en hin knöppu tveggja mínútna tímamörk gilda.)