151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

uppfærð markmið Íslands fyrir aðildarríkjafund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26).

[14:17]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni ræðst árangurinn í loftslagsmálum af samvinnu margra og þar er atvinnulífið í lykilhlutverki. Því eru grænir hvatar til atvinnulífsins og til grænnar nýsköpunar, sem ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á, þýðingarmiklir en auðvitað ekki síður frumkvæði sem kemur frá fyrirtækjum um land allt. Það eru t.d. frábærar fréttir að vel gangi með þróun tækni sem mun valda stökkbreytingu við að draga úr losun kolefnis frá álverum, þróun svokallaðra óvirkra rafskauta. Notkun þeirra verður til þess að kolefnislosun við rafgreiningu súráls hættir. Gert er ráð fyrir að þessi tækni verði nothæf strax árið 2024 en með henni mætti minnka losun koltvísýrings á Íslandi um allt að 30%. Öll ræktun bindur kolefni í gróðri eins og komið hefur verið inn á hér í umræðunni. Auk þess dregur ræktun gróðurlítils eða rofins lands úr losun kolefnis út í andrúmsloftið. Því má búast við stóraukinni ásókn í land til kolefnisbindingar á næstu árum. Þá vaknar sú spurning hvort land sem notað er til kolefnisbindingar með skógrækt verði í eigu bænda eða einhverra annarra.

Ef rétt er á haldið gætu íbúar í dreifbýli fengið ný tækifæri til að nýta landið sem þeir hafa umráð yfir til kolefnisbindingar og þar með skotið viðbótarstoðum undir afkomumöguleika sína. Viðarnytjar þarf líka að þróa áfram hér á landi. Þar eru þegar til staðar möguleikar til að auka sjálfbærni einstakra byggða og þar með samfélagsins alls. Nýlega skoðaði ég t.d. kyndistöð sem er umhverfisvæn og getur tryggt sjálfbærni og verið liður í hringrásarhagkerfinu. Þá liggur frumvarp fyrir Alþingi sem innleiðir Evrópuregluverk um niðurdælingu koltvísýrings. Ef það verður samþykkt fellur Carbfix-tæknin þar með undir þær aðferðir sem má nota til að vega á móti losun samkvæmt evrópska viðskiptakerfinu.