151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

brottfall ýmissa laga.

508. mál
[15:15]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um brottfall ýmissa laga á málefnasviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Frumvarpið er liður í einföldun regluverks og eitt af stefnumálum mínum á kjörtímabilinu. Mikilvægt er að vinna að því að gera stjórnsýsluna þjónustumiðaðri og einfaldari án þess að gengið sé á samfélagslega hagsmuni.

Undanfarin misseri hefur verið unnið að þessu stefnumáli í ráðuneyti mínu, annars vegar með greiningu á regluverki ráðuneytisins og hins vegar með vefkönnun þar sem óskað var eftir ábendingum frá fyrirtækjum og fólki um það sem bæta mætti í þjónustu, eftirliti og framfylgd regluverks hjá ráðuneytinu og fagstofnunum þess. Þegar hefur farið fram heildarendurskoðun og gerðar hafa verið umbætur á mörgum lagabálkum ráðuneytisins í þeim tilgangi að einfalda regluverk, takast á við breyttar samfélagsaðstæður og ekki síst stafræna þróun. Má sem dæmi nefna lög um lögheimili og aðsetur. Markmið þeirra laga er að einfalda þjónustu og að löggjöfin taki mið af breyttum þjóðfélagsaðstæðum og tækniframförum.

Þá má einnig nefna ný heildarlög um skip og frumvarp til laga um stefnumarkandi áætlanir á sviði samgangna, fjarskipta og byggðamála. Áðurnefnd greining á regluverki ráðuneytisins leiddi m.a. í ljós að ýmis lög á málefnasviði þess hafa lokið hlutverki sínu en eru að formi til enn í gildi þrátt fyrir að hafa ekki þýðingu lengur, ýmist sökum þess að heildarendurskoðun regluverks á málefnasviði ráðuneytisins hefur leyst af hólmi sérsniðin lagaákvæði sem ekki hafa verið felld brott eða vegna þess að hlutverk þeirra var afmarkað í tíma.

Dæmi um regluverk sem hefur ekki þýðingu lengur eru lagabálkar um bæjarstjórnir í tilteknum bæjarfélögum. Sérstök löggjöf gilti um hverja bæjarstjórn fyrir sig. Með heildstæðum sveitarstjórnarlögum er nú kveðið almennt á um stjórnskipan og stjórnarhætti sveitarstjórna. Þar er nánar kveðið á um þann lagaramma sem við á um sveitarstjórnir, hlutverk þeirra og stjórnun. Sama á við um lagabálka varðandi kaupstaðarréttindi einstakra kaupstaða. Réttindin voru áður veitt með sérlögum frá Alþingi. Með sveitarstjórnarlögum, sem tóku gildi 1986, gátu bæir orðið kaupstaðir að uppfylltum vissum skilyrðum svo ekki þyrfti lengur sérlög til. Hefur sú framkvæmd því ekki tíðkast í seinni tíð.

Annað dæmi um regluverk sem hefur lokið hlutverki sínu eru lög um lagningu sjálfvirks síma og lög um innheimtu jöfnunargjalds vegna alþjónustu fyrir nánar tiltekinn árafjölda. Ljóst er að þeir lagabálkar hafa lokið hlutverki sínu og eru óþarfir í lagasafni. Æskilegt er að úrelt lög eða lög sem hafa lokið hlutverki sínu séu felld brott úr lagasafni þannig að ekki sé til staðar óvissa um gildandi rétt og lagaframkvæmd. Frumvarpið felur ekki í sér efnisbreytingu á gildandi rétti.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í grófum dráttum og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.