151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

háskólar og opinberir háskólar.

536. mál
[15:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006, og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008.

Með frumvarpinu eru gerðar breytingar á aðgangsskilyrðum að háskóla. Frumvarpið felur í sér breytingar á 19. gr. laga um háskóla og 18. gr. laga um opinbera háskóla þar sem kveðið er á um inngöngu nemenda í háskóla. Stúdentspróf hefur lengi verið aðalaðgangsskilyrði í háskóla á Íslandi samkvæmt lögum. Með breytingunni sem hér er boðuð verður lögfest að nemandi sem staðist hefur lokapróf á þriðja hæfniþrepi úr framhaldsskóla fái jafnan rétt til aðgangs að háskólum og þeir sem lokið hafa stúdentsprófi.

Virðulegur forseti. Með þessari lagabreytingu eru skilyrði til aðgangs að háskóla löguð að þeim breytingum sem urðu í kjölfar nýrrar aðalnámskrár framhaldsskóla árið 2011 eftir að lögum um framhaldsskóla var breytt árið 2008. Sérstaða stúdentsprófs fyrir lagabreytinguna var sú að gerð námsbrautarlýsinga var miðlæg hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti. Framhaldsskólar höfðu takmarkað svigrúm til útfærslu námsbrauta og voru námsleiðir til stúdentsprófs fáar. Með nýjum lögum um framhaldsskóla var ábyrgð á gerð námsbrautarlýsinga alfarið flutt til framhaldsskólanna. Sem dæmi má nefna að nú eru yfir 150 leiðir til stúdentsprófs með ólíku efnisinnihaldi sem Menntamálastofnun hefur staðfest. Lokapróf úr framhaldsskóla eru því fjölbreytt og ólík að efni og innihaldi. Á sama tíma hafa aðrar námsleiðir á þriðja hæfniþrepi þróast og breyst og eiga ekki á nokkurn hátt að vera lægra settar í skólakerfinu en stúdentspróf í öllum sínum fjölbreytileika.

Virðulegi forseti. Markmið þessa frumvarps er að jafna möguleika þeirra framhaldsskólanema sem ljúka prófi af þriðja hæfniþrepi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla til háskólanáms. Háskólar eru jafnframt hvattir til að móta skýr og gegnsæ aðgangsviðmið fyrir nám í einstaka deildum.

Samhliða miklum tækni- og samfélagsbreytingum, þróun sem kennd er við fjórðu iðnbyltinguna, og fleiri þáttum, hafa bæði þarfir samfélagsins og störf breyst. Mikil eftirspurn er eftir iðnmenntuðu fólki til starfa en jafnframt býr iðnnám fólk sérstaklega vel undir margvíslegt háskólanám, t.d. í verkfræði, næringarfræði og fleiri greinum.

Við viljum koma til móts við ólíkar þarfir og áhuga nemenda og tryggja að leið nemenda að námi við hæfi sé greið. Nauðsynlegt er að færni, hæfni og þekking nemenda sé metin í raun og aðgangsskilyrði háskóla gerð skýr þannig að nemandi geti hagað námi sínu í framhaldsskóla eftir inntökuskilyrðum einstakra námsbrauta í háskóla, en við eigum ekki að setja nemendum stólinn fyrir háskóladyrnar sem hafa lokið öðru lokaprófi á þriðja hæfniþrepi en stúdentsprófi. Breytingin sem felst í þessu lagafrumvarpi á að vera hvati fyrir háskóla að setja sér enn skýrari aðgangsviðmið sem taka mið af raunverulegri færni og þekkingu nemenda en ekki yfirskrift á prófskírteini.

Virðulegur forseti. Umtalsvert samráð hefur nú þegar farið fram vegna þessa frumvarps og 16 umsagnir bárust í samráðsgátt stjórnvalda. Almennt lýstu umsagnaraðilar ánægju með frumvarpsdrögin og breytingar á aðgangsskilyrðum. Margir umsagnaraðilar fögnuðu frumvarpinu og telja breytingar á aðgangsskilyrðum löngu tímabærar og vonast jafnframt til að breytingin verði til þess að fleiri nemendur ljúki iðnnámi og fái jafnframt ríkari og jafnari tækifæri til að hefja háskólanám.

Virðulegur forseti. Með framangreindum breytingum er stefnt að því að aðgangsskilyrði háskóla verði í samræmi við hæfni, færni og þekkingu nemenda en ekki kerfisleg hindrun fyrir þá sem hafa staðist annað lokapróf á þriðja hæfniþrepi en stúdentspróf. Frumvarpið felur þar af leiðandi í sér aukið jafnræði til náms óháð námsleiðum og þeim lokaprófum frá framhaldsskólum sem nemendur hafa. Það er mat mitt að með þessum breytingum verði stigið framfaraskref í rétta átt fyrir íslenska þjóð.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni 1. umr.