151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

nýting á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.

538. mál
[17:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ágætisundirtektir varðandi tilganginn með þessu máli.

Spurt er um þau mörk sem dregin eru milli nýtingar í atvinnuskyni og þess sem einstaklingar gera. Það er alveg skýrt að í þessari vinnu var ekki verið að horfa til þess. Það hefði verið talsvert umfangsmeira verkefni en engu að síður mjög áhugavert álitamál. Sjónarmiðin sem ég tel að komi kannski helst upp á yfirborðið þegar menn dýfa sér í þá umræðu er það sem snýr að náttúruverndinni og það tengist aftur þessum almannarétti og heimildum til að þrengja að honum ef nýting hans fer að stríða gegn sjálfbærnimarkmiðum o.s.frv. Maður sér beinlínis ekki fyrir sér að þau leyfi sem fjallað er um í frumvarpinu gætu leyst úr því álitamáli, heldur væri frekar um það að ræða að virkja ákvæði sem ég hygg að séu til staðar í lögum um náttúruvernd til að þrengja aðgengi að einstaka stöðum, t.d. takmarka þann fjölda sem kemur á hverjum degi, á ákveðnum árstímum eða annað þess háttar.

Ég held að ég hafi skilið fyrirspurnina rétt hvað þetta snertir. Það kann að vera nauðsynlegt að gera slíkt en það væri þá fyrst og fremst á einhverjum slíkum grundvelli. Það getur t.d. gerst, svo að maður taki dæmi nálægt höfuðborginni, að þjóðgarðurinn á Þingvöllum þoli ekki endalausan fjölda fólks.