151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

rekstur hjúkrunarheimila.

[13:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Nú er það svo, eins og hv. þingmaður veit væntanlega, að vinnuhópur var skipaður í sumarlok í fyrra að mínu frumkvæði, sem hefur það hlutverk að greina raungögn um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila. Af hverju var það gert? Það var gert vegna stefnu ríkisstjórnarinnar um að styrkja rekstrargrunn hjúkrunarheimilanna. Skipunin er auk þess í samræmi við samkomulag milli Sjúkratrygginga Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sem undirritað var af öllum aðilum í desember 2019. Gylfi Magnússon stýrði þessum hópi og ég vænti niðurstöðu hans innan fáeinna vikna. Ég neita því ekki að það eru mér ákveðin vonbrigði að þrátt fyrir starfsemi þessa hóps, og þrátt fyrir þau heilindi sem eru afar mikilvæg í vinnu af þessu tagi, skuli undirtónninn í samskiptum aðila opinberlega og á vettvangi stjórnmálanna snúast um gífuryrði. Það eru mér vonbrigði vegna þess að það er algerlega á hreinu að ég sem heilbrigðisráðherra legg mikla áherslu á að sannfærandi og viðunandi gögn komi út úr þessari vinnu sem hægt sé að nýta. Ég bið hv. þingmann að gæta að því að vera ekki að leggja lykkju á sína pólitísku leið til að halla hér orði á ágætt starfsfólk Sjúkratrygginga Íslands.