151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

rekstur hjúkrunarheimila.

[13:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hér er ég einfaldlega ekki að leggja neina lykkju á leið mína og ekki halla neinu orði. Þetta hefur legið fyrir í mörg ár og 2016 steig þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra eitt skref, sem viðurkennt var af öllum að þyrftu að vera fleiri, og kom með meiri pening inn í reksturinn. Þetta hefur legið fyrir í alla tíð núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra. Ríkið ber einfaldlega ábyrgð á hjúkrun aldraðra og daggjöldin duga einfaldlega ekki fyrir rekstrinum í dag. Þau duga varla fyrir launum. Með því að greiða samstarfsaðilum ekki nægt fé úr ríkissjóði er verið að láta sveitarfélögin greiða af útsvarstekjum sínum til ríkisins aftur, sem er ekki hlutverk þeirra. Þegar sveitarfélög leggja fé inn í þennan rekstur, sem þau eiga ekki að þurfa, eru þau einfaldlega að taka af öðrum málaflokkum, af börnum og unglingum og tómstundum eldri borgara. Við það verður ekki unað, hæstv. heilbrigðisráðherra.