151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

málefni lögreglu.

[13:24]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Í kjölfar skotárásar um þarsíðustu helgi hafa sprottið upp umræður um orsakir og ástæður og hvort þörf sé á úrbótum innan lögreglunnar. Auðvitað viljum við sem samfélag koma í veg fyrir slíka atburði og auðvitað þurfa valdhafar að fullvissa borgara um að allt sé gert til að koma í veg fyrir sambærileg atvik í framtíðinni. En við þurfum einnig að tryggja réttindi sem við búum öll við í lýðræðislegu réttarríki. Þetta var haft eftir ríkislögreglustjóra í viðtali 17. febrúar sl., með leyfi forseta:

„Við erum ekki með nægjanlega sterkar heimildir inni í afbrotavarnahlutverki lögreglu sem er eitthvað sem við erum að ræða við ráðuneytið um og svo erum við líka með mjög þröngar skorður til dæmis varðandi afhendingu gagna og hversu lengi við megum halda fólki í stórum rannsóknum.“

Mig langar því að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra í fyrsta lagi hvort forsvarsmenn lögreglunnar hafi farið fram á það við dómsmálaráðuneytið að fá slíkar heimildir, þ.e. auknar heimildir til að sinna afbrotavarnahlutverki sínu og einnig hvort þeir hafi farið fram á útvíkkun á þeim heimildum sem eru þegar til staðar. Hver er afstaða ráðuneytisins og hæstv. dómsmálaráðherra til þeirra beiðna, séu þær til staðar? Það er einnig áhugavert að málflutningur lögreglu virðist ítrekað vera að vopnavæða þurfi lögregluna frekar eða auka eða víkka út heimildir hennar. Ég velti því fyrir mér hver ástæðan er og þá í samhengi við stefnumörkun dómsmálaráðuneytisins í löggæslumálum. Hversu langt ætlar dómsmálaráðuneytið að fara í því að víkka út heimildir lögreglunnar og að hvaða leyti eru núverandi heimildir lögreglu ekki nægjanlegar til að hún geti sinnt afbrotavarnahlutverki sínu? Ef rannsóknarheimildir lögreglunnar verða víkkaðar út eða bætt við þær, hvernig verða réttindi einstaklinga tryggð? Munu almennir borgarar geta treyst á það að ferlar séu til staðar og muni vera til staðar til að tryggja friðhelgi einkalífs og réttindi einstaklinga?