151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

málefni lögreglu.

[13:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Vangaveltur um breytingar á löggjöf er varðar forvirkar rannsóknarheimildir eða afbrotavarnir, það má nálgast þetta út frá báðum atriðum, eru á frumstigi. Þær breytingar sem ég kom með í frumvarpi um lögreglulög inn á þingið voru stefnumörkun míns ráðuneytis í því hvað brýnast væri að laga í lögum um lögreglu. Það er helst að auka samvinnu og samráð lögreglunnar á landsvísu svo að hún sé betur í stakk búin til þess m.a. að takast á við skipulagða glæpastarfsemi sem á sér ekki landamæri við önnur lönd; auka samvinnu við önnur lönd og alþjóðasamstarf og auka samvinnu milli embætta hér svo að embættin þekki og átti sig á þeim brotum sem framin eru í mismunandi landshlutum. Þar er líka verið að efla eftirlit með lögreglunni, gera það sjálfstæðara. Ég held að allar þessar breytingar, hvort sem það er aukið samráð, lögfesting lögregluráðsins, aukið alþjóðasamstarf við lögreglu eða eftirlit með lögreglunni, sýni mjög þá stefnumörkun sem hefur farið fram. Hin umræðan er á byrjunarstigi, hvort það þurfi, en við skulum átta okkur á því að lögreglan þarf að geta tekist á við þann vanda sem uppi er í samfélaginu. Ef hann breytist hratt þá þurfum við líka að bregðast hratt við.