151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

128. mál
[14:21]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en verð að segja að ég er ósammála. Ég óttast að sú aðgerð sem hér er verið að falast eftir og óska eftir að fjármálaráðherra komi með frumvarp um verði þess valdandi að veikja lífeyriskerfi okkar þegar við þurfum einmitt á því að halda að styrkja það, í ljósi þess að þjóðin er að eldast og við verðum með færri og færri vinnandi hendur á hvern eldri borgara. Að því sögðu get ég verið hjartanlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að leyfa fólki að vinna áfram þegar það hefur starfsorku, getu og vilja til. Ég held að eitt af því sem við hér í þessum sal þurfum að fara að ræða af fullri alvöru sé einmitt hvaða aldur sé réttur til að hefja töku ellilífeyris. Við erum sem betur fer líka að horfa á það að heilbrigði manna er meira og starfsorka endist lengur.

Mig langar þá kannski að spyrja hv. þingmann um eitt sem ég veit að hefur verið mikið áhugaefni Flokks fólksins, flokks hv. þingmanns, en það er þetta með skerðingarnar. Nú átta ég mig á því og mér þykir þingmenn Flokks fólksins hafa verið duglegir að benda á ósanngirni sem kann að koma upp vegna skerðinga en á sama tíma finnst mér umræðan stundum verða ansi einföld þegar þessir þættir eru ræddir. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Telur Flokkur fólksins rétt að greiðslur út úr almannatryggingakerfinu okkar séu ekki með neinum hætti skertar þegar fólk getur aflað sér tekna sjálft? Þá velti ég því fyrir mér: Er sanngjarnt að þingmaður á fullum launum geti líka þegið greiðslur úr almannatryggingakerfinu okkar? Er rétt að fólk sem getur unnið og til að mynda fengið vel greitt fyrir að sitja í stjórnum fyrirtækja eða reka sitt eigið fyrirtæki fái áfram fullar greiðslur úr almannatryggingakerfinu á sama tíma og það er fólk sem raunverulega getur ekki aflað sér slíkra tekna? Og þá er spurningin í rauninni: Hvar eiga þessi mörk liggja og hvað þykir okkur sanngjarnt í þeim efnum?