151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

128. mál
[14:48]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við erum hér að stefna algerlega í þráðbeina og rétta átt. Það er ekki vafa undirorpið hérna megin, enginn vafi á því. Ég get glatt hv. þingmann með því að við erum hreinlega að ganga fram með enn frekari breytingar á kerfinu. Við höfum þegar mælt fyrir frumvarpi, sem fékk ekki mikla athygli, sem er gríðarlega mikið hagsmuna- og réttlætismál fyrir þá sem eru lögþvingaðir til að láta 15,5% af launum sínum inn í þessa lífeyrissjóðshít og hafa svo á tilfinningunni þegar kemur að því að taka út úr sjóðunum að það sé ekkert áunnið og ekkert sem þeir eru í rauninni að safna til efri áranna nema bara hluti einstaklinga. Þess vegna er grái herinn svokallaði, sem allir þekkja, kominn í mál við ríkið til að láta reyna á hvort það sé löglegt að skerða vegna eigna í lífeyrissjóði. Við í Flokki fólksins höfum lagt fram það frábæra frumvarp sem hv. þingmaður getur tekið fagnandi. Það er að koma með skilyrðislausan eignarrétt á því sem þú hefur tekið af þínum launum og lagt inn í þessa sjóði. Þetta sé ekki bara einhver samtryggingarsjóður heldur sé þetta líka þín eign og hún erfist til eftirlifandi. Þetta er kerfi frá 1969 og það er búið að breyta því hvorki meira né minna en yfir 200 sinnum síðan eftir hrun, hvorki meira né minna. Það er bara hamast í því að breyta því fyrir utan náttúrlega hvernig er farið með okkar fjármuni. Það eru yfir 20 milljarðar notaðir bara í yfirbyggingu, 20 milljarðar á ári til að borga þeim sem reka þetta kerfi fyrir okkur, sem eru búnir að sjúga sig svo fast á spenann á kerfinu að við náum þeim ekki af spenanum nema að rífa úr þeim báða gómana.

Þetta er bara hluti, þetta er bara bruðl. Þetta er óráðsía með okkar fé. Við teljum alveg óumdeilt að þessu fjármagni verði betur varið með staðgreiðslu þannig að við getum nýtt það í okkar sameiginlegu sjóði.