151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

128. mál
[14:51]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Ég hafði ekki áttað mig á því að þetta frumvarp væri komið fram, samflokksmaður hv. þingmanns leiðréttir mig ef það er ekki komið fram, en ég hafði alla vega ekki tekið eftir því. (Gripið fram í.) En ég mun kynna mér það. Ef ég skildi hv. þingmann rétt varðandi það að allar lífeyrisgreiðslur einstaklings yrðu eyrnamerktar viðkomandi í lífeyrissjóði hans … (Gripið fram í.) Já, eins og þingmaðurinn orðaði það, það væri eignarréttur á öllu sem viðkomandi hefði greitt í lífeyrissjóð. Það er að mörgu leyti dálítið mikið annað kerfi en það sem við höfum verið með hér á Íslandi. Það er athyglisvert að slíku kerfi svipar mjög til kerfa eins og eru t.d. víðast hvar í Bandaríkjunum, þ.e. að fólk borgi bara sjálfu sér í sinn eigin lífeyrissjóð og það komi hinu opinbera ekki nokkurn skapaðan hlut við. Það er einmitt einkenni á lífeyriskerfum þar sem almannatryggingakerfi eða velferðarkerfi er yfirleitt veikt. En ég tel ekki að íslenska lífeyriskerfið eða samheldnin í samfélaginu og samfélagið yfirleitt sé komið á þann stað að við trúum því í alvöru að við eigum að bera okkur saman við samfélög þar sem velferðarkerfið er í rauninni miklu veikara en við myndum nokkurn tíma sætta okkur við (Gripið fram í.) á Íslandi. Ég held að þessi aðferð væri ekki mikið skárri en sú sem hv. þingmaður er að leggja til í þessari tillögu.