151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

128. mál
[14:55]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir andsvarið. Þingmaðurinn ræddi fyrst aðeins um breytingar á samfélaginu og hækkandi lífaldur og að við værum í rauninni smátt og smátt að koma okkur upp kynslóð hraustra eldri borgara sem hefðu töluverða vinnugetu. Það er sem betur fer rétt hjá þingmanninum. Þetta er smátt og smátt að gerast og mun hafa áhrif á það hvernig við munum horfa á lífeyriskerfin í landinu til framtíðar. En leiðin til að leysa það er að mínu viti alls ekki sú að byrja núna að skattleggja inngreiðslurnar. Það er þá miklu frekar að halda að sér höndum hvað það varðar og taka greiðslurnar þá þegar fólk er komið á lífeyrisaldur og þarf á þjónustunni að halda. Ég held að spurning þingmannsins — og nú ætla ég kannski að leggja þingmanninum orð í munn, herra forseti — ætti kannski fremur að vera þessi: Þarf að hækka lífeyrisaldurinn út af þessu? Það er kannski ekki óeðlileg spurning í raun og veru. Þingmaðurinn þekkir það eins og ég að slík umræða hefur verið í gangi í samfélaginu og gott ef við hv. þingmaður vorum ekki einhvern tíma saman í nefnd sem ræddi þetta. Það var í einhverju öðru lífi okkar beggja. En hvað um það, það er kannski hluti af svarinu.

Varðandi síðan það sem þingmaðurinn spurði um, hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra sem hefðu minnst væri ekki of lágar, þá er það jú hárrétt hjá þingmanninum. Við höfum verið að stíga skref á þessu kjörtímabili til að mæta þeim vanda, að vísu ekki nægilega stór að mati þingmannsins (Forseti hringir.) en þau skref hafa verið stigin og við þurfum að halda áfram á þeirri braut.