151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

128. mál
[15:00]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þingmaðurinn nefndi þetta sem hann og ég og áreiðanlega miklu fleiri þingmenn höfum rætt um hér í þingsölum, að áherslurnar í skattkerfisbreytingum eigi að vera þannig að lækka skattbyrði þeirra sem hafa lægstu launin. Og það er það sem hefur verið gert á þessu kjörtímabili, þ.e. að með þeirri kerfisbreytingu sem varð á tekjuskattskerfinu, með því að búa til þriðja þrepið, voru skattar þeirra sem lægst höfðu launin lækkaðir. Ég er alveg sammála þingmanninum um að það hafi verið mikilvægt. Þingmaðurinn er vafalítið að vísa í að við eigum að halda áfram á sömu braut. Ég held að þegar færi gefst og við höfum tækifæri til þess þá eigum við að gera það. Það er kannski ekki hægt að gera allt í einu en það er alveg klárlega skynsamleg stefna, enda stendur sú ríkisstjórn sem ég styð um þessar mundir fyrir þeirri stefnu. Þannig að það er ágætt.

Varðandi hins vegar það sem þingmaðurinn kallaði sjúkdómavæðingu — ég er ekki alveg sammála þeirri notkun á því hugtaki en það er annað mál — hafa einmitt á kjörtímabilinu verið stigin skref í þá átt að gera fólki í lægstu tekjuþrepunum, öldruðum, öryrkjum og fleirum, kleift að notfæra sér þá heilbrigðisþjónustu og þá læknisþjónustu sem er í boði með því að lækka álögur á þessa hópa þegar þeir nota þessa þjónustu. Ég tel að það hafi skipt miklu máli. Það er hins vegar eðli málsins samkvæmt þannig að það að styrkja og bæta velferðarkerfið er alveg örugglega eilífðarverkefni. Við munum (Forseti hringir.) þurfa að halda áfram á sömu braut og það er fagnaðarefni að þingmenn Flokks fólksins (Forseti hringir.) skuli vekja máls á slíkum atriðum. Við þurfum öll að vera vakandi í þessum málum.