151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

mat á umhverfisáhrifum.

156. mál
[15:31]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er bara flutt í ræðustólinn, það er ekkert annað, en mikið er það gaman.

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Ég hef gert það allnokkrum sinnum áður en við dræmar undirtektir þó að ég átti mig ekki alveg á því hvað veldur, nema kannski einhver — ég ætla ekki að segja það núna, það passar kannski ekki.

Í 1. gr. frumvarpsins kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

Eftirfarandi breytingar verða á 1. viðauka við lögin:

a. Liður 3.22. orðast svo:

Vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira falli í A-flokk.

b. Liður 3.24 orðast svo:

Stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu (vindbú) með 2 MW uppsett rafafl eða meira falli í A-flokk.

Og síðan segir í 2. gr. að lög þessi taki þegar gildi.

A-flokkurinn er náttúrlega sá sem kveður á um umhverfisáhrifin og þessar stöðvar hafa hingað til verið undanþegnar algerlega öllu sem heitir umhverfisáhrif og frumvarpið varð eiginlega til þegar kom í ljós að það var alveg ótrúleg ásókn í það að kaupa sér réttindi eða setja upp svona vatnsafls- og vindorkustöðvar.

Í greinargerð frumvarpsins segir:

Mál þetta var áður flutt á 150. löggjafarþingi, 890. mál, en náði ekki fram að ganga. Það mál var sameinað í eitt úr tveimur frumvörpum þessa efnis þannig að nú er sem sagt komið bæði með vindinn og vatnið saman hér. Þetta hefur ekki verið hugsað þannig þegar verið er að koma með litlar virkjanir til heimabrúks, eina litla virkjun í bæjarlæknum heima, að það þurfi að fara í gegnum alls konar kerfi til að fá það í gegn, alls ekki.

Í gildandi lögum falla vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira og stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu, þ.e. vindbú, með uppsett rafafl 2 MW eða meira í flokk B í 1. viðauka. Samkvæmt 1. mgr. 1. viðauka skal meta framkvæmdir sem falla undir B- og C-flokk í hverju tilfelli fyrir sig og af því leiðir að ekki er skylt að framkvæma mat á umhverfisáhrifum við slíkar framkvæmdir.

Þetta er í rauninni það sem ég er að tala um, að hafið verði yfir allan vafa að þeir sem virkja til eigin brúks á sveitabænum heima eða í kringum sjálfa sig í eigin þágu þurfi ekki að fara í umhverfismat. Þetta byggir eiginlega á því að áður voru kannski allt upp í 10 eða 20 leyfi fyrir stöðvum sem voru undir 10 MW, t.d. 9,99 MW, að verið var að safna á kannski fáar hendur mörgum slíkum leyfum. Það segir sig sjálft að þetta hefur áhrif á náttúruna. Framkvæmdir við gerð og rekstur fallvatnsvirkjana og vindbúa kunna að hafa í för með sér veigamikil áhrif á lífríki og náttúru. Óánægja ríkir með núverandi fyrirkomulag þar sem virkjanir undir 10 MW rafafli hafa hlotið framkvæmdaleyfi án þess að umhverfismat hafi farið fram, eins og ég sagði áðan. Þá geta vindmyllur með 2 MW aflgetu verið töluvert stórar og því verið áberandi í umhverfinu sem eitt og sér getur valdið ýmiss konar röskunum. Því er lagt til að öll vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira og stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu, þ.e. vindbú, með uppsett rafafl 2 MW eða meira falli undir flokk A í 1. viðauka og framkvæmdaleyfi verði samkvæmt því ávallt háð mati á umhverfisáhrifum.

Ég vona sannarlega að tekið verði vel tekið utan um þetta. Í allri umræðu um að vernda lífríki og náttúru okkar þá finnst mér og okkur í Flokki fólksins þetta frumvarp vera algjört þarfaþing. Ég vona að þingheimur taki utan um það þó svo að enginn sé í salnum nema þingflokkur Flokks fólksins og hæstv. forseti.