151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

mat á umhverfisáhrifum.

156. mál
[15:36]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér um útvíkkun á því sem við köllum umhverfismat, gjarnan stytt svoleiðis, eigum við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda eða áætlana, og þetta snýr að orkuverum. Ég vil byrja á því að vekja athygli á að ég flutti mjög svipað mál árið 2018, að vísu með aðeins hærri mörkum, og það mál liggur reyndar aftur fyrir þinginu núna, þannig að við hv. þm. Inga Sæland erum svolítið að róa á sömu miðum. Mér finnst þessi neðri mörk, með 0,2 MW, 200 kW, vera of lág. Ég setti það sjálfur við 1 MW, þ.e. 1.000 kW, sem mér finnst eðlilegra viðmið þegar um er að ræða vatnsvirkjanir. Hvað vindorkuna snertir er verið að tala um eitt einstakt mastur, einstaka vindmyllu sem eru nú orðnar ekki bara 2 MW heldur jafnvel milli 5 og 10 MW, hver einasta mylla. Það er alveg sjálfsagt að það fari í umhverfismat. En ég vil þá vekja athygli á því að ef slíkar vindmyllur yrðu reistar á annað borð þá væri það einhvers staðar innan sveitarfélaga þar sem byggð er væntanlega nálægt þannig að þetta færi bara í slíkt ferli, sennilega sjálfkrafa, vegna tillits til byggðar. En látum það nú vera.

Það sem mig langaði að spyrja um snýst ekki um þetta, þetta voru bara upplýsingar til hv. þingmanns, heldur það að nú hefur verið starfshópur starfandi við endurskoðun mats á umhverfisáhrifum og þetta er komið í samráðsgátt. Hefur hv. þingmaður kynnt sér þá niðurstöðu?