151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

innheimtulög.

162. mál
[16:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Maður verður nú að nýta tækifærið og lappa upp á vinskapinn hér á Alþingi þegar maður dettur í það að vera sammála Miðflokknum og hv. þingmönnum hans. Ég er mjög hlynntur þessu máli. Ég verð að vekja athygli á því að það er félag í þessu samfélagi sem heitir Hagsmunasamtök heimilanna og þetta ágæta félag stendur þokkalega oft að frumvarpsgerð, mjög góðum frumvörpum að mínu mati. Þau sem ég hef kynnt mér af þeim taka oft á mjög djúpstæðum vanda í samfélaginu sem Alþingi eða ríkisstjórnin setur af einhverjum ástæðum ekki í þann forgang sem er við hæfi. Fyrir það ber að þakka því að það er ekki sjálfsagt að frjáls félagasamtök úti í bæ skrifi frumvörp eða taki svo ríkan þátt í löggjafarhlutverkinu. En þá vil ég auglýsa sérstaklega eftir því meðal þingmanna að þessi samtök séu tekin alvarlega. Ég fæ það nefnilega á tilfinninguna, ég hef ekki sterkari sönnunargögn en þá tilfinningu, að það sé vanmetið hversu gagnlegt innlegg þessara samtaka er hér í nefndastörfum og virðingarverð vinna sem þar fer fram. Þess vegna vil ég líka þakka hv. þingmönnum Miðflokksins fyrir að leggja fram þetta góða frumvarp.

Ég kem þó aðallega hingað upp til að fjalla örstutt um smálánastarfsemi og neytendavernd í fjármálum almennt. Þannig er nefnilega mál með vexti að við fæðumst ekki með fjármálavit. Við þurfum að læra fjármálalæsi alveg eins og við þurfum að læra að lesa. Við getum lært á eigin spýtur en það gerist ekki af sjálfu sér og fólk í nútímasamfélagi þarf að kynna sér ansi mikið í fjármálum til þess að verja sig gegn ýmsum gildrum sem lagðar eru fyrir blásaklaust fólk af stofnunum eins og smálánafyrirtækjum og jafnvel bönkum, stórum og virtum fjármálastofnununum, misvirtum að vísu, en stórum fjármálastofnunum þar sem fólk veit alveg hvað það er að gera eða telur sig vita það.

Annað dæmi um slíkt er hvernig verðtryggingin hefur áhrif á hagsmuni fólks án þess að fólk átti sig á því. Eftirköst hrunsins 2008 sýna svo ekki verður um villst að almenningur sem tók verðtryggð húsnæðislán, oft með mjög háum vöxtum og jafnvel uppgreiðslugjaldi og þess háttar, var ekki í góðri aðstöðu til að átta sig á afleiðingum gjörða sinna. Það, virðulegi forseti, er ekki frelsi í minni bók. Frelsið snýst um að geta tekið upplýstar ákvarðanir um eigin hagsmuni, eigin framtíð og til þess þurfa upplýsingarnar að liggja fyrir. Það er sama regla með lýðræðið. Það þarf að vera upplýst. Fólk þarf að læra, það þarf að hugsa, það þarf að kynna sér hluti til þess að lýðræðið virki. Og það sama gildir um aðrar tegundir af frelsi. Fólk þarf að skilja og vita og þekkja. Það er algjört grundvallaratriði til að frelsið og lýðræðið gangi upp yfir höfuð.

En þrátt fyrir að peningar og peningakerfið og fjármál séu svo rótgróið grundvallaratriði í nútímasamfélagi er merkilega lítil áhersla lögð á það hjá okkur sem og víðar að fólk sé fjármálalæst. Án fjármálalæsis dettur fólk stundum í gildrur eins og smálánastarfsemi. Jafnvel hér í umræðum um smálánastarfsemi hef ég heyrt þingmenn benda á að til sé fólk sem ekki hafi efni á mat í lok mánaðarins og þurfi þá jafnvel að leita á náðir smálánastarfsemi. Sú orðræða undirstrikar punkt minn. Það er engin lausn. Smálánastarfsemi er ekki lausn á einu eða neinu, hún gerir bara illt verra. Þetta er siðlaus starfsemi að mínu mati og hún misnotar fullkomlega eðlilegt skilningsleysi fólks á fjármálum. Við kennum ekki samfélaginu á fjármál. Við kennum það ekki svo heitið geti í grunnskóla, jú, smá stærðfræði og prósentureikning, en það er bara ekki nóg, virðulegur forseti, það er bara alls ekki nóg. Það að taka upplýstar ákvarðanir í fjármálum getur falið í sér þó nokkuð mikla vinnu.

Nú búum við í tiltölulega móðgunargjörnu samfélagi og ég veit að þessi orðræða, að stinga upp á því að fólk þurfi að þekkja fjármál betur, móðgar sumt fólk og það verður bara að hafa það. Þetta er bara eins og að lesa. Það þarf að læra það á einhverjum tímapunkti til að kunna það. Við fæðumst ekki með þessa þekkingu. Það er ekkert sjálfsagt að hinn almenni borgari, sem fær aldrei tækifæri til að öðlast þessa þekkingu, geri einhvern svakalegan greinarmun á 3% eða 4% þegar hann tekur lán eða hvaða áhrif uppgreiðslugjald hefur á íbúðalán og tækifæri til þess að endurfjármagna og gera allar þær gloríur. Þegar kemur að því að verja hinn almenna borgara fyrir stórkostlega skaðlegum fjármálagjörningum þá verðum við einfaldlega, alla vega þangað til fjármálalegt læsi er orðið jafn sjálfsagt og það að kunna að lesa texta yfir höfuð, að setja bönd á þá starfsemi sem misnotar aðstæður fólks með þeim hætti sem smálánastarfsemi gerir og ýmis önnur fjármálaúrræði svokölluð sem boðið er upp á. Þetta er mikið lykilatriði.

Mér finnst satt best að segja pínu skrýtið hvernig ætlast er til þess af hinum almenna borgara að hann skilji peningakerfið og fjármálakerfið eins og fólk eigi bara að fæðast með þessa þekkingu. Það er náttúrlega ekki þannig. Auðvitað ekki. Peningar eru nefnilega, hvort sem fólki líkar það betur eða verr, algjör forsenda þess að við getum sérhæft okkur og eru þar af leiðandi ein af grunnstoðum nútímasamfélags, jafnvel gamaldags samfélags ef út í það er farið, þetta er gömul uppfinning. Það er skrýtið að við leggjum ekki meiri áherslu á að hinn almenni borgari hafi þekkingu á svona grundvallaratriði og þekki það vel og geti tekið ákvarðanir í fjármálum frekar auðveldlega án þess að detta í einhverjar gildrur eins og smálánastarfsemi.

Lagatæknilega séð er þetta ekki endilega skemmtilegt umræðuefni, ég átta mig á því. Ég efast um að margir sem hafa áhuga á því að leysa þessi vandamál hafi sérstakan áhuga á því að finna út úr lagatæknilegum lausnum sem eru til staðar. Þess þá heldur ber að þakka fyrir samtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna og aðra aðila í samfélaginu sem láta sig þetta varða, að reyna að laga kerfið okkar þannig að fólk sé óhultara fyrir þessari starfsemi og eigi því betri kost á því að haga ákvörðunum sínum eftir eigin höfði með upplýstum hætti og þar með frjálsum.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að ég ætlaði að tala stutt eða gaf það alla vega sterklega í skyn. Ég er að spá í að brjóta odd af oflæti mínu og standa við það. Ég lýk því máli mínu en þakka aftur hv. þingmönnum Miðflokksins fyrir að leggja fram þetta góða frumvarp.