151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

innheimtulög.

162. mál
[16:13]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég stend hér upp til að þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ágæta ræðu hans. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þó að leiðir okkar liggi ekki alltaf saman í stjórnmálunum þá erum við í ýmsu tilliti bandamenn. Við erum það í þeim málum sem við erum að tala um hér, eða a.m.k. sem ég er að tala fyrir hér í dag, sem er bætt neytendavernd á fjármálamarkaði. Og ég lít á hv. þingmann sem afar traustan og góðan liðsmann í baráttu fyrir auknum og bættum rétti neytenda á fjármálamarkaði. Ekki er vanþörf á.

Það mál sem við erum að ræða hérna núna er um að fylla upp í glufur. Enginn á að þurfa að þola það að sæta innheimtuaðgerðum af hálfu aðila sem ekki sætir eðlilegu eftirliti, hvort sem það er Fjármálaeftirlitið eða Lögmannafélagið eftir atvikum. Hér á eftir mun ég mæla fyrir máli sem lýtur að starfsemi þeirra sem hafa með höndum að gera vanskilaskrár og annað slíkt. Ég fagna því auðvitað mjög að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson skyldi snúast á sveif með okkur sem höfum barist gegn verðtryggingunni. Hann nefndi þann mikla háska sem fólki stafar af því að skuldbinda sig til að bera ábyrgð á fjármálagerningi sem í eðli sínu er afleiða og er fyrirbæri sem jafnvel er notað af fjárglæframönnum.

Ég vil sömuleiðis þakka orð hv. þingmanns um Hagsmunasamtök heimilanna og taka undir þau. Ég hef átt mikið og gott samstarf við þau ágætu samtök áður en ég settist á þing og eftir að ég settist á þing. Það vill þannig til að þau búa að yfirburða lögfræðiþekkingu. Við kannski þekkjum það báðir, við hv. þingmaður.