151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

innheimtulög.

162. mál
[16:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo skemmtilegt við grunnstefnu Pírata að við trúum á upplýstar ákvarðanir og sömuleiðis að það skipti ekki máli hvaðan hugmyndir koma. Ég legg mig fram við að skoða hugmyndir óháð því úr hvaða átt þær koma. Ég held að það sé pínu vanmetin regla í pólitík almennt en á í sjálfu sér ekki að vera eitthvað sem fólk þarf að stæra sig af ef út í það er farið. Þetta eru bara heiðarleg vinnubrögð og ákveðið lágmark að mínu mati.

Ég get svo sem lítið annað en tekið undir með hv. þingmanni og sér í lagi þegar kemur að hlutum eins og verðtryggingu. Ég verð aðeins að deila því hvernig það gerðist að ég varð mótfallinn verðtryggingu. Það var ákveðið ferli eins og oft er þegar maður er að „díla“ við stór umræðuefni. Nokkrir þættir leiddu mig í þá átt en eitt af því — verandi orðinn áhugamaður um íbúðalán og aðra hluti sem venjulegu fólki finnst kannski leiðinlegir — var að ég var oft að ráðleggja vinum og vandamönnum í kringum lánveitingar, hvort hægt væri að endurfjármagna, hvort það væri skynsamlegt og þess háttar. Sú reynsla sýndi mér svo skýrt hvað fólk er í rauninni í vondri stöðu til að skilja þessi mál ef það setur sig ekki mjög vel inn í þau.

Við hv. þingmenn vinnum náttúrlega við að kynna okkur þessi mál þannig að við erum í ákveðinni forréttindastöðu þegar kemur að því en hinn venjulegi borgari sem vill bara þak yfir höfuðið og vinnur við eitthvað allt annað, segjum kvikmyndagerð eða hvaðeina, hefur ekki raunhæft tækifæri til að skoða allar afleiðingar af svona stórum fjármálagjörningum, sér í lagi þegar þeir eru í reynd afleiðuviðskipti, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á. Verðtryggingin er afleiðuviðskipti sem eðlilega eru nokkuð sterk bönd um venjulega. Ég get svo sem lítið annað en tekið undir með hv. þingmanni og skal heita því að styðja mál Miðflokksins í fjármálum þegar þau eru á rökum reist eins og þetta mál.