151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

fullur aðskilnaður ríkis og kirkju og ný heildarlöggjöf um starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga.

178. mál
[17:26]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég á erfitt með að átta mig á því hverju hv. þingmaður er að reyna að ná fram með þessum spurningum sínum. Ég skil það ekki alveg og ég veit reyndar ekki til þess að a.m.k. sá sem hér stendur hafi mikið verið að tjá sig um niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar frá 2012. Það getur vel verið að hann sé að beina orðum sínum að mér en sé að tala við einhverja aðra, ég veit það ekki. Það kann að vera.

Kjarninn í því sem ég er að segja er sá að nú er liðinn langur tími frá þessari þjóðaratkvæðagreiðslu og það hefur ekkert verið með hana gert. Það er staðreynd. Það hefur ekkert verið með hana gert, ekkert. Maður getur spurt sig að því: Hvað á þjóðaratkvæðagreiðsla sem ekkert er gert með að halda lengi? Á hún að binda hendur okkar þingmanna? Er það rof á trúnaði við eitthvert mál að flytja tillögur sem eru ekki nákvæmlega í samræmi við niðurstöður viðkomandi þjóðaratkvæðagreiðslu? Er það ekki eðli þjóðaratkvæðagreiðslu að spyrja um vilja þjóðarinnar á tilteknum tíma og framkvæma svo vilja þjóðarinnar á þeim tíma? Mér finnst það vera eðlileg röð hlutanna. Ég vil því bara segja að lokum að ég átta mig ekki á því hverju hv. þingmaður er að reyna að ná fram, en hann á það auðvitað við sjálfan sig.