151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég vil byrja á að hrósa Veðurstofu Íslands fyrir að halda vefnum sínum gangandi fyrir fólk sem vill nálgast upplýsingar um skjálfta dagsins. Þó að það hafi ekki gengið hnökralaust eru það tilfinnanlegar framfarir.

Svo vil ég minnast aðeins á skipulagsleysi. Þetta kjörtímabil hefur einkennst af skipulagsleysi. Það hefur verið augljóst frá fyrsta degi og er augljóst í störfum þingsins þar sem þingmannamál fylla mestmegnis dagskrá vikunnar. Þó að þau komist hins vegar í 1. umr. hreyfast þau hvergi í nefndarvinnunni frekar en venjulega nema með klassískri vesenispólitík sem snýst um þinglok. Skipulagsleysi eins og hefur einkennt kófið og handahófskenndar aðgerðir stjórnvalda sem skila sér seint og illa til þeirra sem á þurfa að halda. Skipulagsleysi sem sést í viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við faraldrinum þar sem gert var ráð fyrir stuttum faraldri, vonir sem stóðust engan veginn, og afleiðingin er verra ástand, t.d. í atvinnumálum, en ef reynt hefði verið að skipuleggja til lengri tíma eins og tillögur stjórnarandstöðunnar voru í fyrsta aðgerðapakkanum. Skipulagsleysi sem leiðir til þess að minnst hefur verið bólusett þar sem þéttnin og smithættan er mest. Skipulagsleysi þar sem allt er unnið á síðustu stundu sem gerir það að verkum að maður missir af tölvupóstum um vaktir á forsetastól. Skipulagsleysi sem annaðhvort er merki um vanhæfni stjórnvalda eða viljandi ákvörðun. Ég veit ekki hvort er verra.

Að lokum biðst ég afsökunar á að hafa misst af téðum tölvupósti en það gerist í önnum vikunnar og störfum þingsins þegar allt er gert á síðustu stundu.