151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Leyfðu mér að leggja til betri leið. Í gær bárust fréttir af því að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hafi til skoðunar að styðja við rekstur flugrútunnar og ferðir hennar á milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Mig langar að færa umræðuna strax upp úr þeim hjólförum. Það er nefnilega ekki svo að samgöngur milli flugvallarins og höfuðborgarsvæðisins liggi alveg niðri þótt tilteknir einkaaðilar tengdir fjármálaráðherra sjái sér ekki fært að halda úti flugrútu. Leið 55 gengur enn á vegum Strætó milli BSÍ og Keflavíkurflugvallar oft á dag, hún stoppar meira að segja á bak við þinghúsið, í Vonarstræti. Stjórnvöldum væri miklu nær að styðja við þá almannaþjónustu, leyfa t.d. leið 55 að aka alveg upp að flugstöðinni og fjölga ferðum, fremur en að setja enn fleiri milljónir í einkafyrirtæki. Fjárfesting í Strætó hefur það einnig fram yfir fjárstuðning við flugrútuna að hún eflir almenningssamgöngur fyrir íbúa Reykjanesbæjar sem oft sækja vinnu eða skóla á höfuðborgarsvæðið. Þetta hlýtur að þurfa að skoða af fullri alvöru.

Endurreisn efnahags og samfélags eftir Covid-faraldurinn þarf að byggja á grænum og réttlátum lausnum. Samgöngur við Keflavíkurflugvöll eru fjarri því stærsti þátturinn í uppbyggingunni sem fram undan er, en þær eru ákveðinn prófsteinn á það hvort ríkisstjórninni sé alvara þegar hún boðar græna uppbyggingu. Verður sú leið farin að niðurgreiða rútuferðir sem nýtast fáum, eða að styrkja almenningssamgöngur sem nýtast öllum?