151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:17]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Hæstv. forseti. Í morgun kynntu hæstv. utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, og hv. þm. Haraldur Benediktsson skýrslu og tillögur starfshóps um ljósleiðaramálefni og útboð ljósleiðaraþráða á eignaskrá Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins. Skýrslan sýnir okkur m.a. fram á hversu mikilvægt er að við Íslendingar tökum alvarlega þá stöðu sem er uppi í dag í tengslum við fjarskipta- og netöryggismál sem aftur er forsenda fyrir því að við getum nýtt okkur fjórðu iðnbyltinguna þar sem 5G-farsímakerfið gegnir lykilhlutverki. Ef 5G-væðingin á að ná fram hér á landi er ljóst að það mun ekki gerast nema öflugt ljósleiðarakerfi sé til staðar. Með leyfi forseta vitna ég í skýrsluna þar sem segir:

„Ljósleiðarakerfi ríkja munu mynda taugakerfi 5G-farneta, enda verði þéttriðin 5G-kerfi trauðla byggð upp án öflugra ljósleiðaratenginga. Þær munu í reynd mynda hryggjarstykki þessarar nýju kynslóðar farnets.“

Af þessu leiðir að umræðan um öryggi lykilinnviða á borð við fjarskiptainnviði verður sífellt háværari meðal ríkja og innan alþjóðastofnana. Alþjóðleg umræða um innleiðingu 5G-kerfa er til marks um þetta og skipa þessi mál sífellt veigameiri sess innan og á fundum aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins, Evrópusambandsins og Norðurlandanna.

Á undanförnum árum hef ég í störfum mínum í stjórnmálum lagt mikla áherslu á að ræða málefni sem snúa að öryggismálum þjóðarinnar, þjóðaröryggismálum, svo sem uppbyggingu flutningskerfis raforku, vegakerfisins, flugvallarkerfis landsins, mikilvægi varaflugvallanna, mikilvægi fjarskiptakerfis landsins og í tengslum við það netöryggismálin sem á síðustu árum eru orðin með allra stærstu málum samtímans, ekki síst á alþjóðavettvangi. Eins og kemur fram í skýrslunni fjallar fimmta stoðin í starfsemi Atlantshafsbandalagsins um netöryggismál, um öryggi lykilinnviða, svo sem fjarskiptakerfa. Að lokum vil ég óska starfshópnum til hamingju með vel unnið verk.