151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég sendi á síðasta þingvetri fyrirspurn á öll ráðuneytin og óskaði eftir upplýsingum um hvernig gengi hjá þeim að fylgja eftir aðgerðaáætlun byggðaáætlunar. Það verður að segjast eins og er að svörin ollu vonbrigðum þar sem svör flestra vísuðu í að vinna væri rétt að hefjast og því væri ekki hægt að svara. Önnur vísuðu í undirstofnanir og hver staðan væri þar sem er vissulega góðra gjalda vert en spurningunni var ekki svarað. Af þeim sem svöruðu skýrt var samgönguráðuneytið metnaðarfyllst sem taldi að 40% starfa innan ráðuneytisins mætti sinna utan veggja þess. Þar á eftir kom menntamálaráðuneytið með 15%. Þessi svör eru sérstaklega áhugaverð í samhengi við viðbrögð ráðuneytanna við Covid-19 faraldrinum. Ég sendi nýja fyrirspurn á ráðuneytin og óskaði eftir upplýsingum um hversu hátt hlutfall starfsmanna hefði starfað utan starfsstöðva. Svörin segja okkur að starfsmenn ráðuneytanna voru að vinna heima meira og minna allt síðasta ár. Lægsta hlutfallið var 60% í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en hæst 100%. En allir starfsmenn utanríkisráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis unnu eitthvað eða alfarið í fjarvinnu á síðasta ári. Það virðist því hafa verið lítið mál á síðasta ári, herra forseti, að vera með starfsmenn sem ekki mættu til vinnu í ráðuneytisbyggingarnar sjálfar. Það er því skýrt, herra forseti, að Covid-19 hefur sýnt fram á að í nútímasamfélagi er lítið mál að sinna ýmsum störfum hvaðan sem er af landinu og er sannarlega tækifæri til að endurhugsa stofnanastrúktúrinn okkar. Það er ekki lengur þörf á því að allar stofnanir séu staðsettar í miðborginni og það er ekki þörf á því að allir starfsmenn hverrar stofnunar séu staðsettir þar heldur.

Ef það er raunverulegur vilji hjá ríkinu, herra forseti, til að auka byggðajöfnuð í landinu þá verðum við að stíga stærri skref í þá átt. Við getum það vel eins og reynslan á síðasta ári sýnir.