151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[13:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil spyrja hvort hv. þingmaður geti ekki tekið undir það með mér að svo hátt þak sem 15% af eiginfjárgrunni muni engu breyta í íslensku bankakerfi eins og það er í dag, einkum ef við horfum til reglna um bankastarfsemina og þess að stöðuhlutfall stóru bankanna þriggja var 4,35% í lok árs 2019; það kemur fram í greinargerðinni. Það er því mjög langt í þetta þak þannig að engu þarf að breyta. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um það. Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvað hann segi um það að þetta stjórnarfrumvarp sé lagt fram til að friða þá stjórnarþingmenn sem hafa talað fyrir því og lagt fram bæði frumvörp og þingsályktunartillögur sem ganga mun lengra en þetta frumvarp og ganga alla leið í þá átt að aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi frá viðskiptabankastarfsemi. Það er sem sagt þetta tvennt, herra forseti, hvort hv. þingmaður sé ekki sammála því að frumvarpið muni ekki breyta neinu og að það sé sett fram af hálfu ríkisstjórnarinnar til að friða hv. þingmenn og hæstv. ráðherra Vinstri grænna og Framsóknar.