151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[13:59]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar, fyrir framsöguna. Hann fór í stuttu, hnitmiðuðu máli yfir frumvarpið og nefndarálit meiri hluta nefndarinnar. Þessi hugmynd, um fullan aðskilnað milli viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi, er komin til af því að þessi samþætting getur verið áhættusöm fyrir samfélagið. Kerfisleg áhætta getum við líka kallað það. Aukin áhætta kallar augljóslega á aukið eigið fé. Um það snýst málið að stórum hluta. Hér er verið að fara tiltekna leið. Hún er einföld. Við getum kallað það hlutfallsleið og nefndin leggur til óbreytt hlutfall, 15%.

Mig langar að freista þess að fá hv. þingmann til að draga fram þróun hlutfallsins. Ég ætla að vísa fyrst í greinargerð á bls. 5 þar sem kemur fram að stöðuhlutfall kerfislega mikilvægu viðskiptabankanna þriggja var 4,35% og hafði lækkað úr 4,85% áramótin á undan. Nýrri upplýsingar um hlutfallið liggja ekki fyrir og ekki er talið að það hafi hækkað merkjanlega. Eins og hv. þingmaður fór kannski aðeins nákvæmar yfir, í andsvari við hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, eru ekki skýr skil á milli fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi og þess vegna höfum við verið að þvælast svolítið með þetta. Þrátt fyrir viljann höfum við ekki náð neinni lausn fyrr en núna sem ég tel mjög mikilvægt og styð. En hefur nefndin einhverjar hugmyndir um það hvernig hlutfallið geti þróast úr þessum 5% tæplega upp í 15%?