151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:56]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Byrjum á því að taka fram að ég sagði ekki að það að hafa þetta svona væri ávísun á hrun. Það sem ég sagði var að ef þetta er svona og það kæmi hrun gætu afleiðingarnar orðið mun verri. Það er fullyrðing mín.

Nú finnst mér eins og hv. þingmaður hafi farið úr kirsuberjatínslu yfir í veiðiferð af einhverju tagi með því að reyna að lokka mig upp í umræður um stjórnarskrána og loftslagsbreytingar og ýmislegt annað sem ég er alveg til í og alltaf til í. En reynum að tala um það sem er fyrir hendi. Það er alltaf þannig að þegar við erum að setja lög og reglur um það hvernig hagkerfið virkar, hvernig bankar virka, þá erum við að reyna að búa til einhvers konar jafnvægi, einhvers konar meðalhóf, einhvers konar mekanisma sem er öruggur gagnvart samfélaginu en loka ekki of mörgum dyrum og bjóða ekki hættunni heim. Talað er um að ef við förum þessa leið séum við að fara út í bankakerfið eins og það var 1990 á Íslandi eða eitthvað þess háttar, þar sem flokkur hv. þingmanns stóð ítrekað fyrir endalausum fjármagnshöftum og gjaldeyrishöftum og hvað eina, hávaxtakerfi og því um líku. Við búum ekki við sömu aðstæður og við bjuggum við, en það eru hlutir sem við getum lært af sögunni og reynslu annarra ríkja sem hafa gert hlutina betur.

Þess vegna segi ég: Lærum af reynslu annarra þjóða, reynum að gera hlutina betur og verum ekki alltaf svona hörundsár þegar farið er að gagnrýna það að hlutirnir séu illa gerðir, sérstaklega þegar við vitum alveg að það er tilfellið.