151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

Fiskistofa.

232. mál
[16:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um Fiskistofu með síðari breytingum (niðurfelling strandveiðigjalds). Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Ingu Sæland er um að ræða sérstakt gjald, 50.000 kr. gjald á eina atvinnugrein. Ef við myndum yfirfæra þetta gjald á stóru skipin og allir yrðu að borga gjald reiknað út frá því hversu mörg stór skipin eru og hvað þau taka mörg tonn af fiski, og þau þyrftu að borga þá gjald sem samsvaraði 50.000 kr. gjaldi á strandveiðibát, þá held ég að myndi nú heyrast harmakvein í mörgum í útgerðinni, þeir væru nú ekki tilbúnir að borga eitthvað svona sérstaklega, ef þetta væri sett bara sérstaklega á uppsjávarskip, eða sérstaklega á togveiðiskip eða sérstaklega á línu. Það myndi enginn vilja og þess vegna er þetta ósanngjarnt gjald og óskiljanlegt með öllu.

En einhverra hluta vegna hefur löggjafinn og ríkisstjórnin uppgötvað að þetta séu breiðu bökin til að taka við þessu gjaldi, eins og kemur fram í greinargerð með í frumvarpinu. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Útgerðir strandveiðibáta eru lítil fyrirtæki og hafa einungis tekjur af strandveiðum fjóra mánuði á ári. Á því tímabili mega útgerðir einungis gera bátana út 12 daga í hverjum mánuði, eða alls í 48 daga.“

Munið það, ekki föstudaga, ekki laugardaga og ekki sunnudaga, einhverra hluta vegna.

„Strandveiðar við Ísland hafa þó fest sig í sessi og þær skila sínu til þjóðarbúsins eins og framangreindar tölur gefa til kynna. Bæði reynsla og allar tölur sýna að mannlíf í höfnum sjávarbyggða allt umhverfis landið væri vart svipur hjá sjón ef þessa útvegs nyti ekki við.“

Alveg eins og kom fram í frumvarpinu hér á undan, nákvæmlega þetta. Þetta er að stórum hluta lífæð litlu þorpanna allt í kringum landið. Svo segir hérna áfram orðrétt, með leyfi forseta:

„Strandveiðigjaldið svokallaða er sértækur skattur sem lagður er á einn útgerðarflokk umfram aðra. Engin sambærileg gjöld eru lögð á skip sem stunda aðrar veiðar en strandveiðar. Þetta felur í sér ójafnræði í ljósi þess að eigendur strandveiðibáta greiða lögbundin hafnargjöld eins og aðrir. Því er með þessu frumvarpi lagt til að ákvæði um strandveiðigjaldið í lögum um Fiskistofu verði fellt brott.“

Amen við því. Þetta er eitt af mörgum ósanngjörnum atriðum í kerfinu, þetta er ósanngjarnt gjald, ósanngirni gagnvart einhverjum einstökum aðilum. Ósanngirnin er oft óskiljanleg, það er eins og það sé bara happa og glappa, þarna er einhver sem við getum beitt rangindum, og þarna er annar, en ekkert hugsað í hvaða tilgangi verið er að mismuna. Við erum með stjórnarskrá sem bannar mismunun en samt erum við alltaf að mismuna. Það er alltaf verið að gera kröfu um að við þurfum fá í hvelli nýja stjórnarskrá en ég segi fyrir mitt leyti: Er ekki kominn tími til að við förum eftir núverandi stjórnarskrá? Hvenær ætlum við að gera það og hætta allri svona mismunun? Fólki er mismunað af því bara, því það er hægt. Ég vona heitt og innilega að þetta fari í gegn en eins og við er að búast er það lítil von vegna þess að þeir sem eru með völdin settu þetta gjald á, þetta mismununargjald, og munu örugglega verja það vegna þess að þeir telja að einhverra hluta vegna eigi bara strandveiðimenn að borga sérstakt gjald í ríkissjóð. Stórfurðulegt.