151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

233. mál
[16:29]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Við verðum kannski seint sammála í þessu máli, við hv. þingmaður. Ég vil þá bara ítreka það sem ég sagði hér áðan í ræðu minni, að hið opinbera, hv. félags- og barnamálaráðherra, hefur einmitt gefið út skýrslu um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Þetta er nýleg skýrsla, frá því í janúar 2019, þar sem lagt er til að lögfesta opinberar valdheimildir til að grípa inn í þegar alvarleg kjarabrot eru leidd í ljós og bent á að slíkar heimildir hefðu almenn varnaðaráhrif gegn kjarabrotum. Þetta er frá ríkisstjórn félagsmálaráðherra sem hv. þingmaður styður væntanlega að ég held, eða svona í orði kannski. En þetta er alveg klárt, verkalýðsfélögin hafa kallað eftir þessu, hið opinbera hefur ályktað um það og búið er að gera skýrslu um að taka eigi á þessum málum. Hér er gott frumvarp sem búið er að leggja mikla vinnu í og kalla eftir. Ég stend við það að þetta er nauðsynleg aðgerð. Þessar stjórnvaldssektir eru hógværar en hafa svo sannarlega fyrirbyggjandi áhrif. Ég ítreka að meiri hluti atvinnurekanda kemur vel fram við starfsfólk sitt en þarna innan um eru skussar sem margítrekað og með stórfelldu gáleysi hafa brotið gegn launamönnum. Og það á ekki að líðast í þessu samfélagi.