151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

kosning umboðsmanns.

[13:01]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill, í ljósi þess að í embætti umboðsmanns Alþingis er kosið á Alþingi og að það er hlutverk forsætisnefndar að gera tillögu þar um, greina frá því að þann 18. febrúar sl. barst bréf frá umboðsmanni Alþingis, Tryggva Gunnarssyni, um lausn frá embætti umboðsmanns Alþingis frá og með 1. maí nk. Bréf umboðsmanns var kynnt forsætisnefnd Alþingis og hefur verið fallist á beiðni hans um lausn frá og með 1. maí nk.

Forseti vill nota þetta tækifæri til að þakka Tryggva Gunnarssyni fyrir störf hans í embætti umboðsmanns Alþingis en hann hefur gegnt því síðastliðna rúma tvo áratugi. Það er lögum samkvæmt hlutverk forsætisnefndar Alþingis að gera tillögu til Alþingis um einstakling í embætti umboðsmanns. Forsætisnefnd hefur hafið vinnu við það ferli og hefur í því skyni skipað þriggja manna undirnefnd úr sínum hópi sem mun annast undirbúning tillögugerðar til forsætisnefndar um tilnefningu einstaklings við kosningu í embætti umboðsmanns Alþingis. Undirnefnd forsætisnefndar mun jafnframt á næstu dögum skipa nefnd þriggja sérfræðinga sem verða undirnefndinni og forsætisnefnd til ráðgjafar.

Síðar í dag verður jafnframt birt tilkynning á vef Alþingis um fyrirhugaða kosningu í embætti umboðsmanns. Þar mun koma fram að þeir sem áhuga hafa á því að verða tilnefndir við kosningu í embættið geti sent erindi um það efni til Alþingis fyrir tilgreindan tíma. Enn fremur að þeir sem þess óska geti sent forsætisnefnd ábendingar um einstakling eða einstaklinga sem þeir telja vel til þess fallna að gegna embættinu.