151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

kvikmyndaiðnaðurinn.

[13:33]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að segja að ég er sammála hv. þingmanni um að það eru gríðarleg tækifæri í kvikmyndageiranum hér á landi, umsvifum í erlendum verkefnum og meiri gæðum í innlendum verkefnum sömuleiðis. En það er nú samt þannig að kvikmyndaiðnaðurinn er á góðum stað. Þar er mjög björt framtíð og vöxtur hefur verið mikill. Bara í fyrra voru metumsvif. Ef við horfum á endurgreiðslukerfið þá eru vaxandi fjármunir að fara úr því kerfi sem þýðir að umsvifin eru meiri vegna þess að það er hlutfall af þeim umsvifum sem hér verða. Staðreyndin er sú að endurgreiðslukerfið okkar, sem er það sem skiptir miklu máli og kemur okkur á kortið fyrst og fremst, þrátt fyrir að við séum með öflugt fólk og fallega náttúru sem hefur líka áhrif, er mjög samkeppnishæft. Ég fór sjálf í vinnuferð rétt fyrir Covid, í febrúar í fyrra, og heimsótti alls konar fólk sem kemur með ólíkum hætti að þessum verkefnum og það voru í raun allir sammála um að kerfið okkar væri samkeppnishæft. Það er skilvirkt, það er einfalt. Við erum í raun með allan framleiðslukostnað þar undir og það er það sem skiptir máli. Ríkið sinnir síðan sínum með því að endurgreiða hratt og vel, sem er ekki staðan alls staðar annars staðar.

Það sem við þurfum hér er til að mynda nýtt stúdíó. Ég er ekki að leggja til að ríkið fari í slíka fjárfestingu. En ég vil að kvikmyndaiðnaðurinn trúi þannig á framtíðina og sjái að það séu góð viðskiptatækifæri að fara í slíkar fjárfestingar. Það er rétt hjá hv. þingmanni að samlegðaráhrifin við ferðaþjónustu eru gríðarlega mikilvæg og stór hluti fólks sem hingað kemur tók ákvörðun um það einmitt af því að það sá eitthvert íslenskt efni, tónlistarmyndband, kvikmynd eða annað slíkt, þannig að það eru mikil samlegðaráhrif þar. Við erum með sérstakan starfshóp að störfum og það er spurning hvort við ættum að skoða ákveðinn tröppugang í þessum efnum, þ.e. ef umsvifin ná einhverju marki og verða meiri þá sé möguleiki á að ívilna enn frekar til að hvetja til þess (Forseti hringir.) að stærri hluti verkefnis sé tekinn upp hér eða samningar gerðir til lengri tíma.