151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

kvikmyndaiðnaðurinn.

[13:36]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin þó að þau séu aðeins að hluta til rétt. Það er rangt að Ísland sé samkeppnishæft í þessum bransa. Það er rangt og það kemur í ljós þegar við erum að missa stór erlend verkefni, jafnvel verkefni þar sem sögusviðið er Ísland. Við erum að missa þau út bara í þessum töluðu orðum þannig að það er ekki rétt að Ísland sé samkeppnishæft. Við erum að missa verkefni til Bretlands, Írlands og fleiri landa sem átta sig á þeim tækifærum sem upp eru komin núna einmitt vegna Covid. Þjóðir sem reiða sig mikið á ferðaþjónustuna eru að fara nákvæmlega þessa leið og eru að taka af okkur stóru verkefnin og stóru tækifærin.

Endurgreiðslukerfið er gott, eins og hæstv. ráðherra segir, og hefur reynst mjög vel. En tímabundin hækkun endurgreiðslunnar upp í 35% myndi stórauka samkeppnisforskot Íslands og auka líkurnar á því að við getum halað inn þessi verkefni. Eins og staðan er núna erum við að missa þessi tækifæri.

Ég vil spyrja: (Forseti hringir.) Áformar ráðherra að beita sér fyrir því í ríkisstjórnarsamstarfinu að endurgreiðslur til kvikmyndagerðar verði hækkaðar nú þegar og við missum ekki fleiri stór verkefni? (Forseti hringir.) Þetta er blóðugt. Þetta er grátlegt og það verður að hækka þetta strax. (Forseti hringir.) Þetta er „no brainer“, virðulegi forseti, eða augljóst á góðri íslensku.

(Forseti (SJS): Það má ekki á milli sjá hvort er verra að menn sletti erlendum málum eða fari mjög langt fram úr ræðutíma.)