151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[13:43]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Lengi hefur verið rætt um að draga línu á milli, aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Aukin áhætta kallar á aukið eigið fé. Sú krafa, ásamt fjölmörgum öðrum breytingum á regluverkinu, hefur dregið úr áhættu og aukið öryggi og fjármálastöðugleika. Þegar aðskilnaður er skoðaður þarf að vega rekstrarleg hagkvæmnisrök, skilja á milli án þess að raska núverandi starfsemi fjármálastofnana og hlutverki á markaði. Útfærslan sem boðuð er í frumvarpinu er talin skynsamleg og umfram svokallaða bannleið. Sú hlutfallsleið sem lögð er til í frumvarpinu, og meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar leggur til að við samþykkjum óbreytt, er talin skynsamleg og hún byggir á niðurstöðu hvítbókar um fjármálakerfið. Þar áður hafði fjármála- og efnahagsráðherra skipað starfshóp sem skilaði mjög greinargóðri skýrslu og mælti með þessari leið. Við Framsóknarmenn styðjum því leiðina sem lögð er til hér, hlutfallsleg 15% af eiginfjárgrunni eins og meiri hlutinn leggur til, óbreytta.