151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[13:51]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég get ekki stutt breytingartillögu þá sem hér eru greidd atkvæði um og ástæðan er í sjálfu sér einföld. Verði hún samþykkt fullyrði ég að hagkvæmni íslenska fjármálakerfisins verður miklum mun minni en hún er í dag. Og hvað þýðir það, hæstv. forseti? Það þýðir aukinn kostnað fyrir íslensk heimili. Við getum líkt því við aukaskatt á íslensk heimili og það mun líka þýða aukinn kostnað fyrir íslensk fyrirtæki, ekki síst lítil og meðalstór fyrirtæki, þar sem íslensku stórfyrirtækin, sem eru kannski lítil á alþjóðlegan mælikvarða, eiga þann kost að sækja sér lánsfjármagn, þjónustu og fyrirgreiðslu til erlendra banka. Það er rangt að setja þær kvaðir sem gerðar eru hjá Samfylkingunni í góðri trú, örugglega, en afleiðingin verður sú að íslensk heimili og íslensk fyrirtæki sitja sár eftir.