151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

minning þeirra Íslendinga sem fórust í seinni heimsstyrjöldinni.

264. mál
[17:54]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um að heiðra minningu þeirra Íslendinga sem fórust í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta er í þriðja skipti sem þessi tillaga er lögð fram, að þessu sinni lítillega breytt en efnislega sú sama. Verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt, en að baki henni standa, auk þess er hér stendur, 19 aðrir þingmenn, verður ríkisstjórninni falið að setja fram annars vegar áætlun um að heiðra á varanlegan hátt minningu þeirra Íslendinga sem fórust í seinni heimsstyrjöldinni og hins vegar áætlun um undirbúning minningarathafnar sem fram fari árið 2024. Ríkisstjórnin hafi samráð við sérfræðinga við gerð áætlananna sem verði bornar undir Alþingi í formi þingsályktunartillögu eigi síðar en í apríl 2021.

Það er alveg augljóst að nefndin sem fær þessa tillögu til umfjöllunar þarf auðvitað að skoða þessa dagsetningu sem tók mið af því að vonir mínar stóðu til þess að geta mælt fyrir tillögunni síðastliðið haust, en nú erum við komin inn í nýtt ár.

Þrátt fyrir herleysi Íslands fóru Íslendingar ekki varhluta af því mannfalli sem átök seinni heimsstyrjaldarinnar höfðu í för með sér. Siglingar voru landinu lífsnauðsyn því að flytja þurfti afurðir landsins út og birgja landið af hvers kyns nauðsynjum á stríðsárunum. Þá jókst verðmæti og mikilvægi útflutnings sjávarafurða gríðarlega. Jafnframt leiddi herseta Breta og síðar Bandaríkjamanna til þess að íslensk skip voru að einhverju leyti í þjónustu þeirra og skiptu miklu máli í baráttunni fyrir frelsi Evrópu og heimsins alls. Mikilvægi íslenska skipaflotans fólst þó ekki síst í útflutningi á afurðum landsins. Siglingar á hafsvæðinu kringum Ísland voru því tíðar og má rekja megnið af mannfalli Íslendinga á stríðsárunum til árekstra og árása á íslenska skipaflotann þótt allnokkur íslensk skip hafi farist langt frá Íslandsströndum.

Við Íslendingar og bandamenn allir stöndum í þakkarskuld við þá sem lögðu líf sitt að veði í þessum siglingum fullkomlega meðvitaðir um áhættuna. Fórnir þeirra sem fórust voru miklar og er löngu tímabært að heiðra minningu þeirra líkt og lagt er til í þingsályktunartillögu þessari. Flutningsmenn telja viðeigandi að Alþingi samþykki að heiðra varanlega minningu þeirra sem fórust nú þegar 75 ár eru liðin — nú eru það 76 ár og ástæðan er auðvitað sú að ég gerði mér vonir um að ná að mæla fyrir tillögunni fyrir löngu — frá því að hildarleiknum lauk og að sérstök minningarathöfn verði haldin árið 2024 þegar þess er minnst að 85 ár eru frá því að seinni heimsstyrjöldin hófst.

Fyrir liggja heimildir um þann fjölda Íslendinga sem lést á stríðsárunum þótt heildartalan ráðist nokkuð af því hvað er álitið flokkast undir fall af völdum stríðsátaka. Í sumum tilvikum skortir upplýsingar um ástæður þess að skip fórust. Þó liggja fyrir tilgátur sérfræðinga sem hafa rannsakað þessa sögu og skráð heimildir. Má þar nefna Þór Whitehead sem gaf út verkið Ísland í hers höndum árið 2002. Gunnar M. Magnúss tók saman verkið Virkið í norðri III sem var endurútgefið með breytingum og viðbótum árið 1984 af Helga Haukssyni. Þar er yfirlit yfir alla Íslendinga sem létust af völdum stríðs. Af þessum heimildum má álykta að í það minnsta 153 Íslendingar hafi látist vegna árása á skip sem þeir voru á eða árekstra skipanna við tundurdufl. Um er að ræða íslensk skip og erlend skip sem höfðu íslenska skipverja um borð. Þetta eru 0,13% af íbúafjölda hér á landi miðað við manntal í lok árs 1940, en þá voru Íslendingar 121.474. Þessu til viðbótar fórust 58 á tveimur skipum, Sviða og Max Pemberton, sem líkur standa til að hafi tengst árekstrum við tundurdufl. Einnig er gert ráð fyrir þeim sem féllu á Íslandi á stríðsárunum fyrir hendi bandarískra hermanna. Heildarfjöldi Íslendinga sem féll af völdum stríðsátaka var því um 211 eða 0,17% af íbúafjölda landsins í lok árs 1940. Þetta er litlu minna hlutfallslegt mannfall en í Danmörku. Það má benda á að í Bandaríkjunum var mannfallið, miðað við sömu forsendur, 0,2%.

Með greinargerð þessari birtist nafnalisti yfir alla þá sem féllu í seinni heimsstyrjöldinni vegna þessa eftir árum. Mér finnst líka rétt að geta þess að við erum ekki bara að heiðra minningu þessara manna, þessara hetja sem við eigum, heldur líka sýna fjölskyldu þeirra og afkomendum virðingu.

Nú er þegar að finna nokkur minnismerki um þá sem hafa látist á einstaka skipun, svo sem á Sjóminjasafninu um þá sem fóru með Dettifossi og Goðafossi. Í einhverjum tilfellum eru grafreitir erlendra manna sem fórust við Ísland sérstaklega merktir. Jafnframt er við höfnina í Reykjavík yfirlit yfir öll skip sem hafa farist við Íslandsstrendur, m.a. á stríðsárunum. Ekki er fyrir að fara neinum varanlegum minnisvarða um alla þá Íslendinga sem taldir eru upp hér í þessari þingsályktunartillögu. Það er því löngu tímabært að skipa þeim varanlegan sess í sögu þjóðarinnar. Með hvaða hætti slíkt verður best gert skal nánar útfært af ríkisstjórn í samráði við sérfræðinga sem starfa m.a. á sviði sagnfræði og safnafræði.

Frú forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu gangi þingsályktunartillagan til allsherjar- og menntamálanefndar og til síðari umræðu.